Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

27.7.05

Papa Flo

Ég á amerískan pabba. Hann heitir Flo og gætir anddyrissins milli þrjú og ellefu á kvöldin. Hann er sjálfskipaður yfirmaður hinna dyravarðanna og getur flautað hvaða lag sem er með útvarpinu.

Þegar ég flutti inn passaði ég mig vel á því að heilsa öllum dyravörðunum með handabandi og kynna mig og mitt íbúðarnúmer fyrir þeim. Þar sem þeir eru allir svartir og á svipuðum aldri taldi ég mig hafa tekið í spaðann á línunni. Þannig var ég búin að ganga nokkrum sinnum framhjá Flo og nikka þegar að hann stoppar mig af eitt kvöldið eins og skólastjóri og segir "Unga dama, við höfum ekki verið kynnt". Svo að ég varð sauðaleg og 7 ára og afsakaði mig fyrir ókurteisina. Sem hann fyrirgaf. Svo las hann yfir mér pistil um hverjir væru dyraverðir hér í húsinu, hvert væri þeirra hlutverk, hvaða þjónustu væri að finna í nánasta umhverfi og svo harðbannaði hann mér að vera væflast um garðinn hinu megin við götuna eftir að sólin væri sest. Það væri ekki öruggur staður fyrir stúlkur eins og mig eða nokkurn annan og væri almenn vitneskja meðal borgarbúa. Hann sagðist svo hafa tekið eftir því að ég hefði verið á þönum inn og út, berandi upp nauðsynjar í nýju íbúðina og spurði hvort ég hefði nokkuð borðað. Sem ég svaraði neitandi. Svo að hann sendi mig á veitingastaðinn Woody's handan við hornið og skipaði mér að kaupa mér regnhlíf í sjoppunni á leiðinni því það væri helldemba úti. Það er vel hugsað um mann:-)

0 Comments:

Post a Comment

<< Home