Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

18.11.05

"Hvað ég borðaði í dag" -blogg

Þá er litla holan mín farin að taka á sig mynd, minimaliski stíllinn ennþá ráðandi þó, en á undanhaldi. Hingað inn er ég komin með stærðarinnar stórt (afskaplega stórt) rúm, þriggjasæta sófa, egglaga gímald af stól að vera og svo nýjasta fjölskyldumeðliminn - sófaborðið - sem er ástæðan fyrir því að ég er að verða blönk þrátt fyrir að við séum rétt skriðin yfir í seinni helming nóvembermánaðar. En ég varð ástfangin af þessu borði/kistli/geymslu fyrir 12 vínflöskur, prjónadót og fleira, sem opnast á alla vegu, inniheldur mörg falin hólf og er allt í allt afskaplega patent lausn fyrir 30 fermetra íbúð! Heyrið mig réttlæta innkaup mín... og hljóma eins og Vala Matt í leiðinni!

Þar sem ég er nú komin með borðið, þá get ég farið að nota sófann. Jamm, ég hef ekki notað sófann síðan hann kom af þessari ástæðu. Ég er svolítill Rainman að þessu leiti. Get ekki gengið í nýjum fötum fyrr en þau eru orðin vikugömul inní skáp hjá mér, get ekki notað sófa fyrr en ég er komin með rétt sófaborðssystkyni fyrir það og get ekki keypt mér nýja tölvu fyrr en ég er komin með borð til að leggja hana niður á. Einhverskonar heilkenni. Held að þetta séu áhrif viðsnúna litningssins sem erfist í fjölskyldunni.

Jamm, fartölvan mín vaknaði á fjögurra ára afmælisdaginn sinn og ákvað að hún gæti ekki meira. Bara dó sí svona. Mín fyrsta hugsun var samsæriskenning gagnvart Nýherja sem snerist um 4 ára klukku í móðurborðinu. En satt best að segja þá varð ég hvorki hissa, frústreruð eða reið því greyið hafði staðið sig með sóma allan þennan tíma. Fyrir utan það var hún svo góð að vakna einu sinni til lífsins -last farewell- sem nægði mér til að ná öllum mikilvægum gögnum út úr henni áður en móðurborðið hélt áleiðis yfir móðuna miklu. Svo að ég gaf henni bara klapp á lokið og sagði bless. Var tölvulaus í mánuð þangað til ég sannfærði þennan prýðisyfirmann minnum að það væri fyrirtækinu til góða að lána mér einhvern dall. Þessi dallur er ágætur nema hann á í erfiðleikum með f-in.

Hvað fleira er nýtt... hmmm... það urðu forstjóraskipti í fyrirtækinu, allt gott um það að segja. Í kjölfarið sendum við fólk í heimsókn til Bretlands (þar sem gamli forstjórinn var til húsa) og fólk þaðan kom hingað. Svo að í síðustu viku hitti ég á ný gamla yfirmann minn frá Londonarskrifstofunni og gamla yfirmanninn frá Íslandi. Ákvað að taka ekki trip down memory lane með þeim og lét Miriam um að djamma með túristunum. Hún tók íslenskt fyllerí með bresku ívafi og lá á skrifstofugólfinu daginn eftir og emjaði. Ekki gott combó.

Íslendingafélagið hefur náð að blása nokkrum nýjum straumum inní líf mitt hér. Frekar óíslenskum reyndar, því í gegnum það hef ég kynnst Rebekku. Spænsk-amerísk stelpa sem bjó í eitt ár á Íslandi og er almannatengslamanneskja dauðans. Veit allt um allt sem er að gerast í borginni og hvaða strætó er best að taka til að komast þangað.

Lék í gær aðstoðarmanneskju hennar við afmælismúnderingar innkaup og stóð mig eins og hetja. Fann á hana magnaðan kjól og topp og nærföt og meikup. Við vorum svo búnar eftir þetta að hún endaði á því að sofa á sófanum hjá mér... því ég er svo central;)

Svo í kvöld gekk ég útaf skrifstofunni og beint í fangið á Obbu... sem ég var að vinna með á Talsambandinu/upplýsingar um erlend númer hér forðum daga. Hún var eins og amma mín þar á þeim tíma. Ég tók ekki einu sinni eftir henni, en hún kannaðist víst við svipinn og hljóp á eftir mér. Hvað heimurinn er lítill!

Jæja, þetta er nú búið að vera soldið "Hvað ég borðaði í dag"-blogg. Gerist af og til. Og svo að ég segi nú frá því hvað ég mun "borða á næstunni" að þá fer ég í dagsferð til New York á laugardaginn og svo mun Þórhallur bróðir heimsækja mig á mánudag frammá fimmtudag sem er einmitt hið rómaða "Thanks Giving". Kannski koma meiri spennandi sögur út úr því:)

0 Comments:

Post a Comment

<< Home