Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

10.1.06

Uppgjör ársins 2005

Árið 2005 var án efa lengsta ár sem ég hef upplifað á mínum 28 árum. Það flutu svo mörg lönd og svo margt fólk í gegn, ógrynni af gleðistundum, þónokkuð af erfiðum tímum.

Á árinu bjó ég í þremur löndum og heimsótti þrjú til viðbótar, eignaðist eitt heimili en bjó svo á tveimur öðrum. Frá sólskinsholunni á Ásvallagötunni til dömpsins í Stepney Green til gamals stúdíósins í Back Bay Boston. Frá borulegum Bretum til ylhlýrra Kana. Eina stundina var ég að hakka í mig Tikka Masala í Soho eftir heilan dag á British Museum og þá næstu var ég að háma í mig fylltan sterakalkún og horfa á ruðningsbolta á Thanksgiving. Heilt haf þarna á milli alveg:)

Ég upplifði London með Bryndísi og félögum í New Cross að ógleymdum öllum heimsóknunum frá Arnari og fjölskyldu. Ég fagnaði frumburði bróður míns rétt eftir bresku kosningarnar í Belfast með Kötu. Kleif Sauratinda með pabba og bræðrum hans. Keyrði til Kanada og fékk mér köku. Keyrði aftur til Kanada á menningarhátíð í Montreal. Hjólaði frá Kaupmannahöfn til Helsingör í þriðja gír alla 60 kílómetrana. Þeysti um New England með Miriam og Jóni Árna. Kynntist hinni einstöku Rebekku og hélt svo í fyrsta skipti í fimm ár heilög jól án Arnars.

Jólafríið heima á Laugateignum var lokahnikkurinn á árinu. Ég er ekkert að verða gömul og væmin þegar ég segi að fjölskyldan og vinirnir heima skipti mig meira máli en þau ábyggilega grunar. Það urðu svo mörg uppgjör hjá mér á síðustu tveimur vikum ársins að ég viðurkenni fúslega að ég var klökk þegar klukkan varð tólf á Gamlárskvöld. Dáldill söknuður en samt mjög fegin því að þetta lengsta ár í heiminum væri liðið og við tæki nýtt.

Ég veit satt best að segja ekki hvað gerist nákvæmlega á þessu ári, hvenær ég kem heim og hvað ég geri eftir það. Ég er auðvitað með plan A og plan B sem ég mun þróa á næstu tveimur mánuðum. En ég held að þetta ár verði alveg jafn viðburðarríkt og það liðna, en kannski ekki alveg jafn helvíti langt.

En jæja, annars er ekkert sérstakt af mér að frétta. Eftir að ég lauk við flugleiðamatspúsluspilið á miðvikudaginn hef ég mest til unnið og lesið. Kynntist reyndar einum nýjum strák um helgina og endaði með honum og vinum hans á gay dansklúbbi rétt hjá mér. Þar var mikið um nakta torsóa, sumir hefðu betur mátt vera í bolnum samt!

0 Comments:

Post a Comment

<< Home