Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

16.1.11

Ef ég ætti að lýsa þessari borg ...

... þá myndi ég segja New York. New York fleytifull af ítölum. Það er líka nokkuð um evrópskt litarraft í bland þannig að ég er engan vegin hvítust. Takið mig alvarlega! Búin að ganga fram á svo kríthvítar hræður hérna að maður mætti halda að sumum væru engar litafrumur gefnar. Ég fékk þó mínar fjórar. Og svo hef ég bara ekki séð einn svartan mann! Verð að minnast á það því að það er (A) frekar óvenjulegt miðað við svona stóra borg en aðallega (B) vegna þess að ég veit að það mun gleðja nokkra ónefnda ættingja ...þeir taka það til sín sem það eiga...

Borgin er skipulögð svipað og NY, eins og rúðustrikað blað. Byggingarnar eru háar, það er mikil umferð, allt troðfullt af leigubílum og ef maður labbar alla leiðina niðureftir þá endar maður við sjóinn. Og svo er það þessi vindur eins og í NY, hann er hér en miklu hlýrri.

Það sem er öðruvísi við borgina er að hún er stútfull af svölum. Það er ekkert verið að spara þær fyrir suðurhliðina neitt. Og útaf hitanum að þá er allt pakkfullt af loftræstingum sem þurfa að vera í gangi allan daginn. Fyrst skildi ég ekkert hvernig það gat rignt á mig úr heiðskýrum himni, en þá var það bara affallsvatn úr loftræstingunum. Fékk alveg þrjár gusur beint í augað bara í gær.

Annars er ég búin að ganga sleitulaust alla daga síðan ég kom. Það er svo mikið að sjá! Eftir fyrsta daginn var ég komin með risa blöðru undir vinstri fæti, svo ég sprengdi hana og gekk bara á gati. Sem var allt í lagi nema þegar ég stoppaði, þá fann ég sársaukann og átti erfitt að komast í gang aftur.Þannig að ég stoppaði bara sem minnst og hvíldi fótinn á kvöldin. Svo reif ég sama fót á grein svo fossblæddi og bætti svo við nokkrum táblöðrum. En nú er ég komin með blöðru undir blöðru og opið sár, þannig að ég þýt ekkert um stræti Buenos Aires í dag. Það er líka 30 stiga hiti og ég ætla að hætta mér upp á þak og reyna að þjálfa þessar fjórar íslensku litafrumur sem mér voru þó gefnar.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home