Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

14.1.11

Roberto ...

Roberto tók á móti mér á flugvellinum. Hann var alveg eins og ég bjóst við. Mínus yfirvaraskeggið. Dökkhærður, rostungslegur, með grátt í vöngum og klæddur í svarta skyrtu, svartar buxur og svarhvítköflótta tangóskó. Við féllumst í faðma og kysstumst eins og örlögin hefðu leitt okkur saman á ný eftir áratuga aðskilnað og löbbuðum svo út í hitann. Hann viðurkenndi að hann væri ekki skynsamlega klæddur miðaða við veður en ég benti honum á rússkinskuldaskóna sem báru mig í gegnum snjó og slabb í Köben ... og hann hló. Ég afklæddi mig svo á bílastæðinu því annars hefði ég ofhitnað og dáið med det samme.

Leigubíllinn var fyrsta ævintýrið. Þetta var lítill rauður fólksbíll frá cirka 1980. Svo lítill að taskan mín komst ekki fyrir í skottinu, en ég kveikti ekki á perunni. Roberto spurði herramannslega hvort mætti bjóða mér að sitja fram í eða aftur í og ég svaraði að vegna örlítillar autobahnhræðlsu væri ég best geymd í aftursætinu. Þannig kom það til að ég sat á fimm akreina hraðbraut, aftur í, án öryggisbeltis, taldi sígrettuskransför í loftklæðningunni og allar gúmmíræmurnar sem höfðu flagnað frá gluggunum í áranna rás og löfðu nú niður hurðarnar. Á meðan sat taskan mín í góðu yfirlæti í framsætinu,ekki í öryggisbelti, með rúðuna skrúfaða niður, ferska goluna framan í sig og hægri olnbogann á Roberto á öxlinni.

Við töluðum saman á bjagaðir ensku og plástraðri spænsku um sundlaugar og Maradona. „He‘s a good footballplayer ... but as un hombre, he‘s crazy in the head!!!“. Himininn var heiður, glampandi sólskin, öll þessi tré sem ég þekki ekki græn græn græn og allar sundlaugar meðfram hraðbrautinni pakkaðar af börnum. Á akreinunum við hliðina voru allar kynslóðir af bílum, allt frá splunkunýjum niður í minn aldur, og alls konar samsettir flutningabílar. Róberto tók svo af mér loforð um að læra tangó meðan ég væri í Buenos Aires. Við féllumst aftur í faðmlög og kossa við húsdyrnar hjá Tangókennaranum og ég sór ég myndi hringja í hann ef ég einhverntíman þyrfti far.


0 Comments:

Post a Comment

<< Home