Dagleg rútína á Entre Ríos
Sit á dansgólfinu inní stofu og multitaska; teygi skankana og skrifa blogg. Úr græjunum berst einstaklega hrjúf karlmannsrödd sem syngur ástarsöngva ... býst ég við. Það sem ég skil er: augu þín, tár, grátur, þegar leiðir skiljast, Buenos Aires, ¿Hver? ...
Úti er sól og hiti, en það er rakinn sem er að drepa okkur hérna á Entre Ríos. Og út af rakanum þá eru skordýrin farin að flýja inn. Svosum ekkert til að tala um ... hef lítið séð og vona að ég sjái sem minnst. Þetta bítur mig nótt sem dag án þess að ég sjái nokkurn skapaðan hlut.
Við höfum verið þrjú í heimili síðastliðinn mánuðinn. Það er Helen - tangókennarinn, Javier - danspartnerinn og stóri bróðir þótt hann nái mér upp að öxlum ... og svo ég. Í gær kom svo sá fjórði heim úr sumarfríi í Brasílíu og ég verð að viðurkenna að ég man ekki hvað hann heitir. En hann er yndislegur,um fimmtugt, alt muglig maður að atvinnu og talar á réttu tempói fyrir mig. Um mánaðarmótin bætist svo í hópin írsk kona sem er í svipuðum pælingum og ég, í smá fríi frá hversdagsrútínunni.
Þetta er yndislegt heimili og nóg að gerast. Hér er skóbúð í anddyrinu, tangókennsla í danssalnum og stanslaus umgangur af tangófólki og vinum Helenar og Javiers. Hér sitja allir mikið í eldhúsinu og kjafta, drekka Mate, horfa á Javier elda kartöflu gnocchi og hlusta á tónlist... svona tilfinningaþrungna eins og ég er að hlusta á núna í bland við Lisu Ekdahl ... því Helen bjó lengi vel í Svíþjóð...
Venjulegur dagur hjá mér er yfirleitt þannig að ég dröslast ótrúlega þvöl og kökudeigsleg eftir raka nótt fram í eldhús um átta og gef mér tíma til að vakna og kjafta ef einhver er kominn á fætur. Það er ekki gefið þar sem porteñoar (BA-búar) eru með allt aðra dagskrá en við yfir daginn, öllu snúið við ... nóg um það síðar. Svo rölti ég niður á Urugay í umferðinni og læri spænsku frá níu til eitt hjá jafnöldru minni sem heitir Fernanda. Hún er mikill feministi og pólitískt þenkjandi, gjörsamlega á móti Frú Kirchner og litlum umbótum í félagsmálum og fær um það miklar munnræpur ef ýtt er á réttan takka.Það er mikið til henni að þakka að skilningur jókst um 50% á einni viku. Eftir skóla rölti ég svo um bæinn og skoða og mingla við heimilisfólkð eða hana Birtu, íslensk stelpa á sama aldri sem flutti hingað út um áramótin og er í sama pakka og ég.
... eða ég geri bara ekki neitt eins og núna. Afrek dagsins eru að ég fékk 98/100 á spænskuprófinu, labbaði niður breiðgötu 9. Júlís peningalaus og vatnslaus og vonaði að ég hefði svitnað nokkrum kílóum af vatni. Vigtaði mig og sá að allt dulce de leche-ið og Havana frappúchinóarnir eru ekki að grenna mig.Svo að ég ákvað að klára alfajor kökurnar með DDL, flatmaga dáldið og leggja drög að því að missa svona eins og 2-3 kíló ... en ákvað að skrifa smáatriða blogg fyrst ...
Hér fyrir neðan er Javier að búa til kartöflugnocchi:
2 Comments:
At 3:19 PM, Bryndis said…
Bíddubíddubíddu, á ekkert að fara að update-a bloggsíðuna!? Meira blogg!! :D
Knús og kossar,
Bryndís
At 12:33 PM, Bryndis said…
STEINUNN! BLOGGA MEIRA!
(don't make me come down there...)
Sakn!
Bryndís
Post a Comment
<< Home