Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

18.1.11

Kjöt og Sykur


Ég vissi áður en ég fór að Argentína væri mikil kjötþjóð. Ég hef búið með kjötþjóðum áður (Austurríki og Þýskalandi) og bjóst við að þetta yrði eitthvað svipað.

Sjálf er ég ekkert brjáluð kjötmanneskja, þ.e.a.s. sem aðalmáltíð á diskinn minn. Ég er reyndar með skinku- og pylsublæti en það er aðeins öðruvísi og ég hef þurft að draga úr því síðustu árin. En þegar ég kem til nýs lands þá legg ég mig fram við að kynnast þeirri menningu sem ríkir í unnum kjötvörum. Þannig finnst mér ég sjá pínu lítið inn í hjarta þjóðarinnar. Í Þýskalandi borðaði ég mína Frakfurtera og Bratwursta og í Bretlandi tókst mér að fá æði fyrir pork pies úr Sainsbury‘s. Ég meikaði reyndar ekki beef jerky í Bandaríkjunnum og finnst það bara rugl. Austurríki stendur ennþá uppúr fyrir það eitt að búa til sérskinku úr skinku OG osti!

Argentína er hinsvegar ekkert venjuleg kjötþjóð. Ég er búin að fara allavegana þrisvar í súpermarkaðinn að kaupa inn nauðsynjr. Í hvert einasta skipti lendi ég í því að þegar ég er búin að raða mjög pent mínu brauði og ávöxtum og grænmeti á færibandið, þá er alltaf einhver lítil amma á eftir mér sem byrjar að stafla troðfullum frauðplastsdúnkunum af kjötvörum á bandið. Og það stoppar venjulega ekki fyrr en það er kominn einhver meter af hakki og lærum og lundum og steikum og frampörtum og innyflum á bandið og augun í mér eru orðin eins og undirskálar og ég er farin að hálf skammast mín fyrir þessa einu skitnu skinku sem ég fann í unnu kjötvörunum.

Þessi eina skitna skinka var reyndar frekar góð og ég hef aldrei fengið svoleiðis áður. Einskonar skinkukryddrúlla með harðsoðnu eggi í miðjunni.

Ekki nóg með það að þá borða þeir innyflin. Ég sá heila í kjötborðinu á einum stórmarkaðnum! Fór út að borða í gær með íslendingum í borginni og á matseðlinum var rétturinn „Kjöt og innyfli“. Ég spurði ekki nánar út í þetta.

En þeir eru ekki bara kjötþjóð, þeir eru mjög mikil sykurþjóð líka. Ég þurfti til dæmis að gera dauðaleit að instantkaffi án sykurs. Fékk uppáhellingu í skólanum í dag og frussaði næstum yfir samnemanda þegar ég fann sirka fimm sykurmola sem ég setti ekki í bollann.

En á móti kemur að þeir eru með ótrúlega gott bakkelsi og glæsilegt! Hættulegt. Ég stend mínútunum saman fyrir framan kruðerírekkann og reyni að velja það fallegasta...

En, það var íslendingahittingur í gær hjá óformlega íslendingafélaginu í Buenos Aires.Það samanstendur af cirka fimm manns með fasta búsetu og svo 3-4 tímabundnum. Þar er ég talin með. Það var verið að kveðja einn og því var farið á nautakjötsstað í Palermo. Þar fékk ég mér hálfa bife de lomo og rauðvínsglas með og get því strikað það út af todo listanum. Þessi mynd var tekin af því tilefni:

2 Comments:

  • At 1:53 PM, Blogger Bryndis said…

    Meira blogg, meira blogg - hvurnig er í tangóskólanum, hvurnig er skólinn, ertu stærri en allir (mér var amk boðið að gerast sundlaugavörður í Mexíkó á þeim forsendum að ég gæti bara vaðið um í djúpu lauginni og pikkað upp drukknandi fólkið og smellt undir handlegginn)?
    Sakna þín ógurlega!
    Bestu,
    Bryndís

     
  • At 7:53 PM, Blogger Fritz said…

    haha... með tilliti til þess að þú þolir ekki klórvatn eins gott þú þáðir ekki boðið *:)

     

Post a Comment

<< Home