Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

25.3.11

Chileönsku firðirnir - Föst á bát með Frakka

Sit á netkaffihúsi í Puerto Montt, fiskibæ í Chile sem síðustu ár óx hratt útaf blómstrandi laxeldi. Háhýsi risu inní litríkri lágreistri byggð og kringlur voru byggðar. Einn daginn, fyrir þremur árum, bættu þeir svo of mörgum norskum seyðum í kerin sín og stofninn dó úr vírus sem seyðin báru með sér. Atvinnuvegur bæjarins í rúst. Færa þurfti fiskeldið suður og óvíst hvort hægt verði að rétta iðnaðinn við í bænum. Ofan á það var kringlan, sem stendur við sjóinn, byggð eftir nýjustu tísku frá höfuðborgðinni, ofan í lítilli dæld þannig að gestir gengu niður á við og inn í slotið. Svo rignir víst svo mikið og allt í kring hæðir að öll fyrsta hæðin fór á flot. Núna standa sandpokar hringinn í kring um kringluna.

Ég hef eignast nýjan aðdáanda hérna, franska stelpu sem gistir í sama herbergi og ég. Hún lítur út fyrir að vera sautján ára, skakkar tennur, bólur og gleraugun. Vantar bara teinana. En nei, hún er tuttugu og átta ára!!! Þegar hún sagði mér aldurinn missti ég andlitið og hraunaði óvar út úr mér "you're shitting me" áður en ég náði að stoppa mig af. Suður Kóreska stelpan í hinu rúminu fór í asískt hláturskast og sagðist sjálf hafa lent í því sama. Sú franska er svo vön að hún fór að segja mér langar sögur af öllu sem hún hefur lent í útaf þessu. Þá komst ég að því að hún talar líka eins og hún sé sautján ára. Hún babblaði svo í eyrað á mér þangað til ég sendi frá mér langan háværan geyspa og ljósin voru slökkt. Í morgun vaknaði ég, sneri mér á hliðina og þarna lá hún í næsta rúmi og horfði í augun á mér. Góðan daginn! Ég dreif mig niður í morgunmatinn og hún á eftir. Hún reyndi svo að para sig saman við mig í dag en mér tókst að hrista hana af mér. Þangað til ég stóð í mollinu niðrí bæ. Var að bíða eftir kaffibolla. Þegar ég sný mér við stendur hún beint fyrir framan mig. Góðan daginn!!!

Á morgun er vika síðan ég fór á flakk. Var aftur komin með fótapirring í Buenos Aires og ákvað að drífa mig á flakk. Upprunalega planið var að taka rútuna til Bariloche (lítill alpabær og vinsælasta skíðasvæði argentínubúa), taka þaðan rútuna yfir fjöllin til Chile og hingað niður til Puerto Montt. Eftir það ætlaði ég með rútu upp Chile og taka svo flugið frá Santiago heim aftur til BA. Í Bariloche rakst ég svo á írska stelpu sem ég kannaðist við úr Ibero spænskuskólanum. Við límdumst saman á mjöðminni og villtumst í fjallafegurðinni, elduðum saman kartöflur í kvöldmat og borðuðum sérvalið úr súkkulaðiframleiðslu bæjarinns. Það var svo góður mórall og skemmtilegt fólk á hostelinu að við enduðum flest öll á því að lengja dvölina. Ég var því tveimur dögum lengur í Bariloche en ég hafði ætlað mér og á meðan á þessu stóð sannfærði ég írsku vinkonu mína um að fara í ferð sem ég hafði heyrt um frá einhverjum öðrum. Í leiðinni sannfærði ég sjálfa mig um sama hlut.

Þannig að planið breyttist. Ég er komin til Puerto Montt, en í staðinn fyrir að fara upp í hitann fer ég niður í kuldann. Ég er búin að bóka mig á fraktskip sem ferjar alls kyns varning niður chileönsku firðina niður til Puerto Natales. Þaðan ætla ég svo að taka rútuna niður til Ushuaia, syðsta bæjar heims. Á morgun hefst þriggja nátta og fjögurra daga sjóferð um firðina, gist verður í 16 manna káetu. Á leiðinni: firðir, jöklar, hugsanlega  mörgæsir og allskonar veður. Við áttum að leggja í hann klukkan tvö á morgun, en ferðinni seinkar eitthvað því skipið lenti í slæmu veðri. Ég krosslegg fingurnar og vona að sterkt þol mitt gegn ælu muni vera tilstaðar nú sem fyrr ...

Þessi franska er á leiðinni í sömu ferð ... verð föst á bát með henni í þrjá daga ... þetta verður áhugavert ...

3 Comments:

  • At 11:43 PM, Anonymous Haukur said…

    djö.... hvað ég öfunda þig af þessum ævintýrum. Njóttu lífsins á þessu flakki.

    kv,
    Haukur

     
  • At 12:45 PM, Blogger Bryndis said…

    En spennandi! Er með þér í anda (en er í raunveruleikanum bara í íbúð í Hlíðunum...buhuuu!)

     
  • At 7:07 PM, Blogger Fritz said…

    Ibud i hlidunum med nyjum flatskja se eg:)

    Eg nyt lifsins, ekki spurning:) Sma seinkun a batnum, fer klukkan 8 i kvold... eftir 4 tima.

     

Post a Comment

<< Home