Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

13.2.11

Ferðin til Mendoza

Ferðalagið byrjaði með 13 klukkutíma fyrsta klassa rútuferð með Andesmar. Það var boðið upp á heitan mat, vín og kósíheit og til að koma öllum í gott skap byrjaði rútuliðinn okkar á því að því að rífa okkur öll með sér í lítinn leik. Við keyrðum því út úr Buenos Aires og inn í sólarlagið spilandi Bingó upp á rauðvínsflösku ...


Á rútustöðinni í Mendoza tóku félagarnir frá ferðafélaginu Cordon del Plata á móti mér og skutluðu mér í skoðunarferð um vínhéruðin. Við vorum sex saman í heilan dag, smökkuðum vín, borðuðum asado (grillkjöt allskonar) og deildum sögum; breskar mæðgur, argentínskar vinkonur og ég ... og Guiuseppi, ítalskur ellilíferisþegi sem var einn á ferð, talaði enga ensku en skildi smá spænsku. Þar sem við vorum tvö stök, hélt hann mér á snakki um Mendoza á ítölsku meðan við keyrðum milli staða og sýndi mér myndir af öllu sem hann hafði gert síðustu vikuna.

Þar sem ég skrollaði í gegnum dagsferðirnar á myndavélinni hans tók ég eftir öllum sjálfsmyndunum. Andlitið á Guiuseppe í Andesfjöllunum, hliðarsvipurinn á Guiuseppe hjá Punta del Inca, ennið á Guiuseppe hjá Kriststyttunni og ég fylltist örlítilli örvæntingu um að hann væri bara ég eftir 40 ár ... einn að þvælast að taka sjálfsmyndir til að staðfesta tilvist sína á ferðalagi ...

Þegar ég kom svo á hostelið mitt sá ég mér til mikillar furðu að herbergið mitt var risastórt með fjórum rúmum, bara fyrir mig! Hostelið var mjög rólegt, ekkert nema fjölskyldur og pör. Þegar líða tók á kvöldið herjaði á mig nokkur einmannaleiki þar sem ég horfði yfir umbúinn rúmin fyrir ... ENGAN... og hugsaði tilbaka til sólbrennda nefsins hans Guiseppe í Andesfjöllunum. Þegar ég var alveg að fara að vorkenna sjálfri mér fyrir að vera einhleyp og barnlaus í útlöndum með engan til að halda utan um mig hugsaði ég fokkit ... þetta er ekki ég ... þetta eru bara þessi þrjú tómu rúm ... svo ég ákvað að skipta um hostel og finna eitthvað líf ...

(Ég vil taka það fram að einmannaleiki er heilbrigð tilfinning sem poppar upp hvenær og hvar sem er eins og hamingja og kvef. Það er bara þegar maður er hræddur við þessa tilfinningu eða lætur hana stjórnar lífi sínu sem hún verður vandamál.)

... og þannig endaði ég á Hostel Independencia:








Nú hef ég litla sem enga hostelreynslu og fyrsta kvöldið á Independencia flaug það í gegnum hausinn á mér að hugsanlega hefði ég gert mistök.

Þegar ég kom þangað á mánudagskvöldi var útigarðurinn pakkaður af ungu fólki með líters bjórflöskur að grilla kjöt. Allir strákarnir gengu um berir að ofan. Tónlistin var há. Ég fékk herbergi við hliðina á afgreiðslunni á fyrstu hæð og akkúrat þegar ég var að fara að sofa klukkan tólf tók húsvöðurinn fram hátalarann við afgreiðsluborðið og blastaði í botn í kapp við tónlistina í bakgarðinum og hláturrokurnar úr stofunni. Útá götu voru þvílík læti, allir að koma og fara mjög fullir. Ég sofnaði í sex manna herbergi þrátt fyrir allan umganginn og þrjár tegundir af óhljóðum úr öllum áttum. Komst að því síðar að þetta átti sér eðlilega skýringu. Aðalafgreiðslustelpan var að halda upp á 21 árs afmælið sitt.

Daginn eftir var allt tandurhreint og fallegt og rólegt og ég hitti vistmenn í eðlilegu ástandi. Þarna var fólk á öllum aldri; Króatískir klettaklifrarar, göngugarpar sem höfðu orðið veikir á leiðinni upp á Acongagua (hæsta tind Suður-Ameríku) og þurft að snúa við, frakkar sem drukku meira en þeir sváfu en voru alltaf franskir og sjúskað ferskir, hálf fullorðið fólk að ferðast um heiminn áður en það byrjar í háskóla, fyrir eigin pening eða fyrir pabbbapening ...

... og þarna fann ég hálfsextugan Bill Clinton look alike frá Bandaríkjunum með gulleyrnalokk í öðru eyra. Það fyrsta sem hann sagði við mig var "Þú lítur ekki út eins og hostel týpan", svo kenndi hann mér allt sem hann vissi. Eftir tvo daga var eins og ég hefði átti heima á hostelinu alla ævi. Í skítugum fötum með fitugt hárið, í flip flopps með vatnsflösku í annarri og þvælt kort í hinni ... smá ýkjur ... búin að vera í flip flopps síðan ég kom hingað og ég var bara skítug því ég nennti ekki að skipta um föt því ég fann enga lykt ...

Við Bill smullum saman eins og flís við rass og tvíburðumst á veitingastöðum eftir langar dagsferðir því þótt hann væri að spara með því að gista á hostelum þá kunni hann gott að éta. Og ég kynntist kynstrunum öllu af fólki, flestallir furðufuglar, en yfirleitt bara á góðan hátt.

Og það var svo gott að komast út úr borginni, það var ótrúlegt! Eftir þrjár vikur af bílum og byggingum öskraði litla náttúrubarnið inní mér eftir smá landslagi, smá fixi af náttúru ... og hana fékk ég í Mendoza. Þarna voru vínhéruðin, endalausar vínekrur svo langt sem augað eygði í eyðimerkurlandslaginu ...

þarna voru Andesfjöllin, mögnuð ...


og svo var það borgin, öll út í skurðum til að nýta vatnið úr fjöllunum, þakin trjám sem skyggðu á göturnar og hlífðu íbúum fyrir hitanum ... því í Mendoza verður heitt. Það rignir um fimm daga á ári að meðaltali. Ótrúlegt nokk náði ég tveimur og hálfum af þessum dögum!

Það er óþarfi að telja upp allt sem ég gerði á þessari viku í einhverjum smáatriðum. Til að gera langa sögu stutta heimsótti ég Zuccardi víngarðinn, fór á hestbak í fyrsta skipti í 20 ár, fór í fjallgöngu í Andesfjöllunum, skoðunarferð um fyrrnefnd fjöll, sólbrann á utanverðum kálfunum (hestaferðin) og í hársrótinni og lenti í hagléli í fjöllunum. Ég átti eina bestu viku ævi minnar og eins og sést kynntist ég fólki til að taka myndir af mér þannig að myndamöppurnar mínar eru ekki fullar af ennum og nefum og hliðarsvipum:


... og í rútunni á heimleiðinni kynntist ég Brasilíubúanum Dimitri sem á systkynin Raisu, Lenín og Stalín því að mamma hans fílaði rúsneskar bókmenntir ... ég hef það á tilfinningunni að mamma hans hafi fílað annað og meira en rússneskar bókmennti ...

0 Comments:

Post a Comment

<< Home