Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

15.2.11

Valentínusardagur á Entre Ríos

Í skólanum var ég dregin upp á töflu með Jonna, 24 ára hollenskum strák. Við áttum að leika par sem var nýbúið að rífast. Þetta var liður í því að auka tungulipurð okkar á spænsku. Mér tókst að rústa Jonna og því sem eftir var af sambandi okkar með því að ásaka hann um að hafa gert eitthvað á klósettinu með annarri stelpu. Ætlaði að segja í baðkarinu. Sagðist hafa lesið tölvupóstinn hans og komist að því þannig (?). Það væru ekki til einkamál milli para. Hann stamaði bara og gat ekki sagt neitt og svo tókst honum með hjálp hinna í bekknum að dömpa mér. Þá kallaði ég hann skepnu (bestia!) fyrir að segja mér upp á sjálfan Valentínusardaginn ...

Svo dró ég skepnuskottið mitt heim og sólundaði deginum í dekur á dekur ofan. Carina, snyrtifræðingur og tangósöngvari , sat hér á Entre Ríos í sjö klukkutíma snyrti fætur, lakkaði neglur, baðaði andlit og söng fyrir  okkur Birtu, Helen og Anette.Við drukkum mate og kaffi og átum facturas og ofdekruðum okkur af sykri. Letin var svo mikil og sjálfsaginn svo lítill að Beelzebub hefði verið stoltur af stelpunum sínum.

Og þegar kvöldaði dröslaði ég mér í lopapeysu (útaf ofvirkri loftkælingu) og  druslubuxur (allt annað skítugt eftir Mendoza)og fór á veitingastaðinn á horninu, Ebro. Þar var fullt af pörum að borða. Þau virtust ekkert að deyja úr rómantík. Playlistinn spilaði slagara á borð við lady in red og maður gekk um og seldi rósir. Rétt missti af honum til að kaupa eina handa Birtunni...

Þetta er vaxandi hefð í Argentínu eins og á Íslandi. Ábyggilega á sama óþægilega stiginu þar sem allir eru óöruggir með hvort þeir þurfi að gera eitthvað og gera það þá að minnsta kosti til að fyrirbyggja einhver vandræði.


Svona var stemmningin í eldhúsinu í gær:



0 Comments:

Post a Comment

<< Home