Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

10.3.11

Hamingjan um borð í bát

Hún er svo ótrúleg þessi tilfinning sem kemur yfir mig stundum. Á ólíklegustu stundum! Sérstök blanda af taumlausri gleði og innilegu þakklæti fyrir að fá að vera til ...

Áður fyrr hefði ég líklegast bara hlegið ... að en ekki með ... eða fundist þetta allt hálf vandræðalegt. En eftir krabbann, þá breyttist eitthvað inní mér, þannig að núna kemur það reglulega fyrir að ég upplifi eitthvað gráhversdagslegt ... og fer að hágráta yfir því hvað heimurinn er fallegur og ég heppin og hvað þetta er stórkostlegt allt saman ... etsetera-etsetera . Ég get ekkert að þessu gert og vil það ekki einu sinni.

Á leiðinni heim frá Uruguay áttí ég svona móment. Það er sjóndæmið hérna að neðan. Ég býst ekki við að þið upplifið það samaJ

Stuttu eftir að við lögðum af stað var boðið upp á lifandi skemmtun. Ungur sætur strákur tók coverlög, vinsæl pop lög frá S-Ameríku. Hann stóð á neðri hæðinni með nótnastatíf og hljóðnema. Eftir eitt,tvö lög hópaðist fólkið til hans á dansgólfð og við uppi stóðum hringinn í kringum handriðið og fylgdumst með. Allt í einu fannst mér allir vera klappandi og blístrandi og dansandi. Gamall kall stóð einn og tók two-steppið, móðir dansaði við unglingsdóttur sína (sem fannst vandræðalegt að dansa við mömmu fyrir framan söngvarann), þrjár litlar stelpur hlupu saman um gólfið og svo voru nokkrir sólóistar að fíla sig í botn. Allan tíman ruggaði hafið okkur fram og aftur og allir sópuðust yfir dansgólfið eftir því hvernig ölduna bar að. Strákurinn var klappaður upp aftur og aftur og allir voru eitthvað svo ... rosalega glaðir ... að einhversstaðar í allri gleðinni varð ég meyr yfir hvað þetta væri allt svo fallegt og allir svo skilyrðislaust hamingjusamir að tilfinningarnar báru mig ofurliði og ég fann skæluna hellast yfir mig.

Ég hljóp aftur í sætið mitt til að jafna mig og hemja flóðið sem var að bresta á en þegar ég hélt að þetta væri komið ...kom enn ein hamingjugusan frá dansgólfinu ...og þá gat égekki meir. Sat bara í sætinu mínu og grét yfir því hvað heimurinn er fallegur, fullur af gleði og að ég fékk að vera á staðnum til að upplifa það ...


0 Comments:

Post a Comment

<< Home