Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

17.2.11

Subte

Það kostar cirka 35 krónur í neðjanjarðarlestina í Buenos Aires, niðurgreitt af borginni auðvitað. Á meðan hækkar kjötverðið svo mikið að hinn almenni Argentínubúi hefur þurft að breyta mataræðinu. Hann getur þó alltaf treyst því að komast til vinnu fyrir slikk.

Ég nota venjulega ekki neðanjarðarlestina. Ekki útaf því að hún er skítugt, sem hún er. Heldur ekki út af því að hún er hættuleg,sem hún er ekki. Bara mikið um vasaþjófnað þar eins og í flestum mannmörgum neðanjarðarlestum. Mér finnst bara best að ganga, þótt það taki miklu lengri tíma. Átta mig betur á hvernig landið liggur og borgin virkar með því að ganga alla leið frá A til B.

Það fylgja því auðvitað aðrar hættur að ganga. Síðan ég kom hingað hefur það einu sinni gerst að ég hef gengið inn í eitthvað vafasamt. Segjum einu og hálfu sinni. Og það er ekki nokkur leið að ég hefði getað vitað það fyrirfram ... held ég. Var að ganga eftir götu fullri af ágætis hótelum og veitingastöðum þegar hún allt í einu breyttist í eitthvað lestarslys þar sem allir sátu á dýnum á götunni með bjór og sígó, í rusli og brotnum rúðum. Þýðir ekkert að panikka, bara best að gefa í botn og láta eins og maður sér læknir án landamæra á leiðinni í vitjun. Ég þurrkaði samt af mér svitann þegar gatan varð gæfulegri á ný.

Í kvöld þurfti ég að fara of langt til að geta gengið það á góðum tíma svo að ég tók neðanjarðarlestina á háannatíma. Ríghélt um töskuna mína, enda búin að heyra ansi margar þjófnaðarsögur úr subte-inu á einni viku. Fylgdist svo grannt með og beið eftir því að verða vitni að vasnaþjófnaði í kringum mig eins og ég væri í dýragarðinum að bíða eftir því að flóðhesturinn kæmi upp til að anda. Hafði þrjá drengi sterklega grunaða enda fannst þeir horfa grunsamlega mikið í kringum sig ... og á mig. Skammaðist mín svo innilega þegar allir þrír gáfu betlara ölmusu sem ég sjálf þóttist ekki skilja. Kjáni ...

Á leiðinni heim kom annar betlari inn í lestina og um leið og hann kynnti sig og fór að blaðra um peninga leit ég niður á gólfið. En ekki lengi, því þessi sýndi listir sínar og jugglaði fimm boltum á miðju lestargólfinu, með lítið sem ekkert pláss.Hann var svo flottur að mig langaði að taka mynd á símann minn, en fattaði svo að þetta var ekki staðurinn til að auglýsa innihald hliðartöskunnar. Ég naut stundarinnar í staðinn. Hann var svo flottur að allur vagninn klappaði þegar hann kláraði og ég borgaði fyrir mig.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home