Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

6.3.11

Uruguay

Áður fyrr, þegar ég heyrði landið Uruguay nefnt, verð ég að viðurkenna að vanþekking mín var svo mikil að ég myndaði mér skoðun útfrá hljóðfræði nafnsins. Ú-rú-gvæ fyrir mér hljómaði eins og frumskógarland með  frumbyggjum og rassöpum sem segðu úhúhúhú-rúgvæ og hlypu uppí næsta bananatré.

Ég hitti fyrsta Úrúgvæann í Mendoza um daginn og gerði grín að þessu við hann. Hann var sem betur fer jafn fáfróður um heimkynni mín eins og ég um hans svo að þetta jafnaðist út án þess að nokkur yrði móðgaður. Hann leiðrétti misskilning um frumskógana og apana og ég komst að því að þessar fyrstu  hugmyndir mínar um landið voru svo langt frá því að vera sannar að það var eiginlega drepfyndið.

Úrúgvæ er lítið land og flatt, hinu meginn við Rio de la Plata, sem er eins og Faxaflói milli höfuðborgar Argentínu, Buenos Aires, og höfuðborgar Uruguay, Montevideo. Margir líta á landið sem eina af sýslum Argentínu því skyldleikinn milli þjóðanna og sögu þeirra er mikill. Það er einum þriðja stærra en Ísland. Íbúarnir eru þrjárog hálf  milljónir talsins og teljast þeir til fámennustu þjóða Suður Ameríku. Helmingurinn býr í höfuðborginni Montevideo, hinn helmingurinn í sveitinni. Aðalatvinnuvegurinn er sá sami og í Argentínu, nautgriparækt, búskapur og sojaræktun. Hæsti punkturinn er 500 metra há hæð. Því má eignlega segja að Uruguay sé Danmörk Suður Ameríku. Engir frumskógar og ég rakst ekki á einn apa ... en ég sá fullt, fullt af hlaupandi fótboltastrákum ...

Ég fór í fjögurra daga ferð til Uruguay, til að skoða mig um og endurnýja vísað mitt (3 mánaða dvalarleyfi). Ég var alveg viss um að ég myndi drepast úr leiðindum því allir hér í BA voru búnir að margtyggja ofan í mig að Úrúgvæ væri svo sveitó, ekkert að gera og ekkert að sjá. Það væri svo rólegt hinu meginn við flóann að ég myndi sofna við komuna þangað. Það þarf ekki að taka það fram að það er systkynarígur á milli landanna ...

 En nei! Ég varð heilluð af höfuðborginni, Montevideo. Hún minnti mig á furðulega mikið á Reykjavík. Lítil (1, 5 milljónir), róleg, allir afslappaðir, göturnar fáfarnar, sjór allt í kring. Hringinn í kringum meginpart borgarinnar var ramblan, sem má líkja við göngu- og hjólastíginn umhvefis Reykjavík. Ég gekk þar um akkúrat við sólarlag og stemmningin var yndisleg. Ramblan var full af skokkurum, fólki að veiða og svo heill her af fólki sem sat með mate-teið sitt,eitt eða með öðrum, vinum eða fjölskyldu, og fylgdist í rólegheitum með sólinni setjast niður sötrandi teið eða í ástríðufullum sleik við vin, vonandi ekki ættingja.


Eitt sem kom mér á óvart var hversu vinalegir og einlægir úrúgvæjar eru. Á fyrsta degi mínum í settist ég niður í almenningsgarði við hliðina á einhverri skrifstofugellu á bekk og skoðaði kortið mitt. Þá fór hún að spjalla og fyrsta spurningin var „ertu að ferðast sóló“ og ég auðvitað sagði „jamm akkúrat“. Hún setti upp sorgmæddan svip sem mér fannst fyndið og ég fór að útskýra fyrir henni að það væri eignlega bara það sem ég vildi akkúrat núna. Við lentum svo á spjalli um allt og ekkert eins og við værum gamlar vinkonur. 

Í strætó hitti ég strák sem fannst ótrúleg tilviljun að hitta Íslending. Deginum áður hafði hann einmitt séð myndband frá landinu! Einhverskonar landkynningu. Ég spurði hann hvort allir hefðu verið dansandi um hamingjusamir  í náttúrunni og glotti þegar hann sagði já, og að það hefði verið æðislegt.

Næst fór ég og fékk mér eitthvað að borða. Í röðinni fyrir framan mig voru krakkar í kringum tvítugt og ég skipti mér ekkert af þeim ...en þau skiptu sér af mér. Þegar þau höfðu náð upp úr mér hvaðan ég væri varð mikil gleði því einn þeirra hafði einmitt séð eina íslenska mynd „strákarnir okkar“ (af öllum myndum!) og fannst hún æði. Annar var norskur fyrrverandi skiptinemi í Úrúgvæ að heimsækja landið aftur. Hann kastaði í mig frösum eins og „Heitur Pottur“  því það hljómar víst eins og „Harry potter“ og „fitusprengd mjólk“ sem er eitthvað tengt hvítum karlkynsvökva á norsku. Að ég tali nú ekki um „draumaprinsinn“ ... drömprins á norsku, sem þýðir víst dildó. Samræðurnar í röðinni voru ansi fínar, en þegar ég hélt við myndum kveðjast kurteisislega og borða burritóin okkar í friði þá sögðu þau „ertu sóló?“ og ég sagði „já“ og þau sögðu „þá sestu hjá okkur“. Þetta var ekki spurning, það vantaði bara að þau tækju af mér diskinn og bæru hann út. Hvernig segir maður nei við kurteisi? Svo að ég sat og spjallaði við þrjá átján ára krakka sem héldu að ég væri 25 ára af einhverjum ástæðum og ég laug því að ég væri þrítug og sagði að ég hefði haldið að þau væru 22 ára. Og það var gaman! Eftir matinn buðu þau  mér að rölta með sér niðrá römbluna en ég afþakkaði og sagðist þurfa að fara niður á hostel að bera á mig sólaráburð áður en ég fuðraði upp. Sem var satt. Sólin var sterkari í Úrúgvæ útaf sjónum.

 En já,  ég var heilluð af Montevideo og hversu ótrúlega vinalegir, einlægir úrúgvæar eru, án þess að vera uppáþrengjandi.

+

Daginn eftir fór ég svo og hitti úrugvæska kontaktinn sem ég hitti í Mendoza. Hann passaði uppá að kynna mig fyrir öllum sérkennum í mat og drykk. Allt frá hamborgaranum sem þeir borða, til rauðvínsþrúgunar sem þeir drekka og ég lét hann segja mér fótboltasögu landsins í smáatriðum. Hann viðurkenndi að sér þætti leiðinlegt að landið hefði uppá lítið annað að bjóða en sólarstrendur og fótbolta og sagðist alltaf verða svo þakklátur þegar fólk tæki sér tíma til að heimsækja landið. Flestir bakpokaferðalangar sleppa Úrúgvæ á leið sinni um álfuna, sagði hann. Því landið væri ekki nógu spennandi. Þarna langaði mig til að hugga hann og sagði honum frá Danmörku sem væri alveg eins flatt en mjög vinsæll staður samt.Við röltum svo niður á strönd, þar sem allir voru skokkandi, því  æfingatímabilið er að hefjast. 


Á ströndinni sá ég strandfótboltavöll  og fullt af táningsstrákum sem lágu  á maganum og rembdust við að gera fettur með öskrandi þjálfara yfir sér. Eftir á settumst við upp í strandvarðarturn, drukkum mate og hann viðurkenndi samviskubit sit yfir því að vindgangurinn úr öllum úúgvæsku kúnum væri að gera gat á ósonlagið. Ég sagði bara já já og naut þess að sitja í heitum vindi, á hvítri strönd og hlusta á öldurnar og rembinginn í litlu fótboltastrákunum. Hugsaði heim og  líka hversu heppin ég væri að fá tækifæri til að upplifa þetta.


Daginn tók ég rútuna og horfði í þrjá klukkutíma á flatlendi á flatlendi ofan þar til ég kom til Colonia, sem er lítill krúttlegur  gamall bær. Hann var svo lítill að ég náði að labba allar göturnar á tveimur tímum og eftir  það hafði ég svo innilega ekkert að gera að ég rankaði við mér á einhverju kaffihúsinu semjandi ljóð. Ég hitti Birtuna og vinkonu hennar og við fórum út að borða. Daginn eftir tók ég svo bátinn heim um kvöldið. Við sigldum burt frá Uruguay inn í sólarlagið og þegar við komum hinu meginn í flóann tók Buenos Aires á móti okkur með öllum sínum fjórtán milljón manns og látum og allri sinni ljósadýrð.

5 Comments:

  • At 7:39 PM, Anonymous Anonymous said…

    Vel skrifað blogg, fegin að lesa það. Og þú ert komin til Buenos, kannski er það bara misskilni
    ngur, þú værir e.t.v. betur komin í Úrúgvæ? Er ekki töluð spænska þar?

     
  • At 12:56 AM, Blogger Fritz said…

    Takk takk - hver er annars? kemur bara anonymus,kann ekki betur á kommentakerfið en það.

    Ég gæti alveg dvalið í Montevideo ... það er líka töluð spænska þar ... en eins og er er Buenos Aires stútfull af svo skemmtilegu fólki að ég fer ekki þaðan næstu 3 mánuðina :)

     
  • At 11:30 PM, Anonymous Haukur H said…

    Rosalega er gaman að lesa um ævintýri þín, samt illa gert af þér að minnast á fólk á hlaupum á ströndinni þar sem við sitjum fastir í 10 stiga frosti og snjó, komumst ekki neitt. Söknum þín úr hópnum - hafðu það sem allra best.

    kv,
    Haukur

     
  • At 11:17 PM, Blogger Fritz said…

    Og þú sem situr við gluggann! Ef það er einhver huggun þá hef ég ekki hlaupið oftar en í þetta eina sinn um daginn... verð í mjög slöppu formi í sumar þegar ég kem heim, þannig að þið þurfið aftur að draga mig á eftir ykkur!Bið innilega að heilsa hópnum:)

     
  • At 12:18 AM, Anonymous Haukur said…

    Hlökkum til að fá þig með í hlaupin, og við verðum sko í formi þannig að það er pressa :-)

     

Post a Comment

<< Home