Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

4.4.05

Af jákvæða Tim og fleiru

Tim er hættur að vera neikvæður alltaf... nema stundum. Ég get ekki lengur kvartað yfir Tim. Hann er meira að segja hættur að blasta lélega tónlist. Kallar mig reyndar tónlistar-Nazi eða tónlistarlögregluna... en svona sex ára bekkjar nafnakall bítur ekki á minni grjóthörðu skel. Ástæðan fyrir því að Tim er hættur að hræða börn með lífþreyttu fasi sínu er bara fyndin og ef ég er afskaplega langdræg, þá er það mér að þakka.
Þannig er nú mál með vexti að yfirmaðurinn minn bað mig um að fara að internetdate-a!! Því að hann átti að gera það en var hræddur um hvernig það myndi líta út að vera með mynd og profile og alles á netinu, harðgiftur maður. Honum greinilega datt ekki í hug að ljúga og leika 18 ára djammpíu frá Essex. Sumum er ekkert ímyndunarafl gefið. Þannig að hann bað mig um það!!! Ég sagði "kemur ekki til greina...been there done that, met the freaks that live there". Þá sagði hann
"gerðuþaðgerðuþaðgerðuþaðsteiunnplískonanmíndrepurmigégeryfirmaðurinnþinn".
Þá sagði ég "ok þá...en sénsinn bensinn að ég setji inn mynd, nafn eða rétta e-mail adressu". Nema hvað... Tim heyrði þetta, veðraðist allur upp, bauð sig mjög skörungslega fram og þegar augljóst var að búið væri að úthluta verkinu... þá bara skráði hann sig samt, mynd, prófæll, laug um þyngd og allt. Svo var hann kominn í ímyndaða keppni við mig. Fór að spurja mig hvað ég væri búin að fá marga pósta, deit etc. Ég er ekki búin að fá eitt! Gæti ekki verið meira sama. Ekkert tapsár, alveg satt. En Tim var komin á ról og höstlaði strax deit...og hann hlýtur að vera mun jákvæðari í tilhugalífinu, því gellan beit á, þau eyddu páskunum saman..og allt!!! Þannig að nú skýt ég mínum sex ára húmor á hann: "How's your girlfriend Tim"... og það er hætt að virka því ég held hann sé in love. Hann er allavegna hrifin að GPS tækinu í litla Mini-num hennar:)

En af öðrum en Tim er það að frétta að London er farin að verða sumarleg og hlý. Og farfuglarnir eru teknir að fljúga hingað yfir í lange baner. Um þar síðustu helgi kom hele familien fyrir utan Þórhall og vorum við fimm hérna í þessari litlu skonsu minni. Tilgangur ferðarinnar var auðvitað að hitta mig og gleðja... en aðallega að fara á Stuðmannatónleika í Royal Albert Hall. Sem var mikið gaman. Mér tókst reyndar að rústa fjöldkyldufriðnum þegar ég leiddi hópinn beinustu leið í Harrods í staðin fyrir Royal Albert Hall... en þótt ég búi í London þá vil ég minna SUMA á það að ég hef sannanir fyrir því að SUMIR voru búnir að grandskoða kortið fyrr um daginn í SAMEININGU og hefðu átt að leiða mig á réttan stað. Ég bara giskaði á húsið með öllum ljósunum;) Sem betur fer var RAH ekki langt undan... en nógu langt fyrir okkur dömurnar sem vorum í miklum spreng, allar í kór. Hinsvegar tókst mér að rétta fjölskyldufriðinn við með því að vippa mér að næsta dyraverði og spurja hvort ekki væri hægt að redda fjölskyldunni plássi saman, víst að húsið væri nú ekki nema næstum 2/3 fullt. Og jújú, það var hægt. Við fengum heila stúku á besta stað útaf fyrir okkur. Máttum bera inn veigar og láta eins og okkur lysti. Þannig að mammalitla stóð mest alla tónleikana fyrir miðja stúku, hristi skrokkinn af innlifum og tók nokkur indíanaöskur. Á slíkum tímum þá sér maður nákvæmlega hvaðan maður hefur þetta:) Svo dóluðum við okkur bara saman, lögðumst í netta dagdrykkju og búðarráp í Covent Garden, og allir fóru sáttir heim.

Um síðustu helgi kom svo kona einsömul í dagsheimsókn. En það var hún Bryndís vinkona sem er búin að missa Sólrúnu sína heim til Íslands. Þannig að til að hugga stúlkuna, eldaði ég ofaní hana timian og hvítlaukskjúlla með öllu tilheyrandi. Gaf henni bjór og rauðvín. Gláptum saman á myndir...sem ég þurfti svooo á að halda eftir að vera búin að vera sjónvarpslaus í 3 mánuði. Steinsofnuðum svo í uppréttri stöðu í sófanum. Vöknuðum og ég matreidda mjöööög svo fituríkar súkkulaðikökur með bráðnuðu súkkulaði inní og vanilluís með. Sáum okkur tilneyddar til að liggja á meltunni uppí rúmi eftir það og lesa Bridget Jones bækur. Og svo fékk ég lit og plokk og fullt af tónlist á iPoddinn minn. Alveg svaka kósí helgi.

Um næstu helgi koma svo fyrrverandi tengdó og mágkona mín yfir í heila 4 daga held ég bara. Tilefnið eru aðrir tónleikar. Emiliana Torrini. Þannig að þá verð ég búin að fara á tvenna íslendingatónleika og enga englendingatónleika í London. Er ég Íslendingur eða er ég Íslendingur?

0 Comments:

Post a Comment

<< Home