Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

25.3.11

Chileönsku firðirnir - Föst á bát með Frakka

Sit á netkaffihúsi í Puerto Montt, fiskibæ í Chile sem síðustu ár óx hratt útaf blómstrandi laxeldi. Háhýsi risu inní litríkri lágreistri byggð og kringlur voru byggðar. Einn daginn, fyrir þremur árum, bættu þeir svo of mörgum norskum seyðum í kerin sín og stofninn dó úr vírus sem seyðin báru með sér. Atvinnuvegur bæjarins í rúst. Færa þurfti fiskeldið suður og óvíst hvort hægt verði að rétta iðnaðinn við í bænum. Ofan á það var kringlan, sem stendur við sjóinn, byggð eftir nýjustu tísku frá höfuðborgðinni, ofan í lítilli dæld þannig að gestir gengu niður á við og inn í slotið. Svo rignir víst svo mikið og allt í kring hæðir að öll fyrsta hæðin fór á flot. Núna standa sandpokar hringinn í kring um kringluna.

Ég hef eignast nýjan aðdáanda hérna, franska stelpu sem gistir í sama herbergi og ég. Hún lítur út fyrir að vera sautján ára, skakkar tennur, bólur og gleraugun. Vantar bara teinana. En nei, hún er tuttugu og átta ára!!! Þegar hún sagði mér aldurinn missti ég andlitið og hraunaði óvar út úr mér "you're shitting me" áður en ég náði að stoppa mig af. Suður Kóreska stelpan í hinu rúminu fór í asískt hláturskast og sagðist sjálf hafa lent í því sama. Sú franska er svo vön að hún fór að segja mér langar sögur af öllu sem hún hefur lent í útaf þessu. Þá komst ég að því að hún talar líka eins og hún sé sautján ára. Hún babblaði svo í eyrað á mér þangað til ég sendi frá mér langan háværan geyspa og ljósin voru slökkt. Í morgun vaknaði ég, sneri mér á hliðina og þarna lá hún í næsta rúmi og horfði í augun á mér. Góðan daginn! Ég dreif mig niður í morgunmatinn og hún á eftir. Hún reyndi svo að para sig saman við mig í dag en mér tókst að hrista hana af mér. Þangað til ég stóð í mollinu niðrí bæ. Var að bíða eftir kaffibolla. Þegar ég sný mér við stendur hún beint fyrir framan mig. Góðan daginn!!!

Á morgun er vika síðan ég fór á flakk. Var aftur komin með fótapirring í Buenos Aires og ákvað að drífa mig á flakk. Upprunalega planið var að taka rútuna til Bariloche (lítill alpabær og vinsælasta skíðasvæði argentínubúa), taka þaðan rútuna yfir fjöllin til Chile og hingað niður til Puerto Montt. Eftir það ætlaði ég með rútu upp Chile og taka svo flugið frá Santiago heim aftur til BA. Í Bariloche rakst ég svo á írska stelpu sem ég kannaðist við úr Ibero spænskuskólanum. Við límdumst saman á mjöðminni og villtumst í fjallafegurðinni, elduðum saman kartöflur í kvöldmat og borðuðum sérvalið úr súkkulaðiframleiðslu bæjarinns. Það var svo góður mórall og skemmtilegt fólk á hostelinu að við enduðum flest öll á því að lengja dvölina. Ég var því tveimur dögum lengur í Bariloche en ég hafði ætlað mér og á meðan á þessu stóð sannfærði ég írsku vinkonu mína um að fara í ferð sem ég hafði heyrt um frá einhverjum öðrum. Í leiðinni sannfærði ég sjálfa mig um sama hlut.

Þannig að planið breyttist. Ég er komin til Puerto Montt, en í staðinn fyrir að fara upp í hitann fer ég niður í kuldann. Ég er búin að bóka mig á fraktskip sem ferjar alls kyns varning niður chileönsku firðina niður til Puerto Natales. Þaðan ætla ég svo að taka rútuna niður til Ushuaia, syðsta bæjar heims. Á morgun hefst þriggja nátta og fjögurra daga sjóferð um firðina, gist verður í 16 manna káetu. Á leiðinni: firðir, jöklar, hugsanlega  mörgæsir og allskonar veður. Við áttum að leggja í hann klukkan tvö á morgun, en ferðinni seinkar eitthvað því skipið lenti í slæmu veðri. Ég krosslegg fingurnar og vona að sterkt þol mitt gegn ælu muni vera tilstaðar nú sem fyrr ...

Þessi franska er á leiðinni í sömu ferð ... verð föst á bát með henni í þrjá daga ... þetta verður áhugavert ...

16.3.11

Almennur bjútídagur á Entre Ríos

Það virðist vera hefð fyrir því hér að annaðhvort syngja eða dansa tangó þegar maður gerir sig sæta ... þetta er jú Buenos Aires ...

15.3.11

Það vorkennir mér enginn á Íslandi

... þegar ég kvarta yfir kuldanum ...

Fyrir tveimur dögum sat ég inní eldhúsi í hlýrabol og stuttbuxum með viftuna í andlitið og kvartaði sáran yfir hitanum. Öll útí flugnabitum á höndunum og klæjaði svo mikið að ég var sjálf búin að valda marblettum. Það var rigning í aðsigi, djúp lægð og úti var skýjað og grátt. Ég þurfti ekki annað en að skipta um skoðun til að það dropaði af mér. Ég fabúleraði um mögulegt breytingarskeið og Helen horfði hálfglottandi á mig, dramadrottninguna við eldhúsborðið.

Ég grátbað um rigningu á netinu og fékk óskina uppfyllta seinna um daginn. Fyrst kom vindurinn svo að allir gluggar hristust til og frá í körmunum og ég beið spennt eftir að lúðrasveitin byrjaði ... en þrumurnar, eldingarnar og hitabeltisskúrinn komu ekki. Í staðin kom aumingjaleg íslensk rigning. Um kvöldið gekk ég svo út berleggjuð og brá við. Það orðið kalt. Peysu og sokkabuxnakalt. Ég fór á Íslendingahitting og við kvörtuðum öll yfir kuldanum.

Ég kvefaðist og frestaði bakpokaferðalaginu til Chile þar til það styttir upp í nefinu og verður heiðskýrt í hausnum aftur.

10.3.11

Hamingjan um borð í bát

Hún er svo ótrúleg þessi tilfinning sem kemur yfir mig stundum. Á ólíklegustu stundum! Sérstök blanda af taumlausri gleði og innilegu þakklæti fyrir að fá að vera til ...

Áður fyrr hefði ég líklegast bara hlegið ... að en ekki með ... eða fundist þetta allt hálf vandræðalegt. En eftir krabbann, þá breyttist eitthvað inní mér, þannig að núna kemur það reglulega fyrir að ég upplifi eitthvað gráhversdagslegt ... og fer að hágráta yfir því hvað heimurinn er fallegur og ég heppin og hvað þetta er stórkostlegt allt saman ... etsetera-etsetera . Ég get ekkert að þessu gert og vil það ekki einu sinni.

Á leiðinni heim frá Uruguay áttí ég svona móment. Það er sjóndæmið hérna að neðan. Ég býst ekki við að þið upplifið það samaJ

Stuttu eftir að við lögðum af stað var boðið upp á lifandi skemmtun. Ungur sætur strákur tók coverlög, vinsæl pop lög frá S-Ameríku. Hann stóð á neðri hæðinni með nótnastatíf og hljóðnema. Eftir eitt,tvö lög hópaðist fólkið til hans á dansgólfð og við uppi stóðum hringinn í kringum handriðið og fylgdumst með. Allt í einu fannst mér allir vera klappandi og blístrandi og dansandi. Gamall kall stóð einn og tók two-steppið, móðir dansaði við unglingsdóttur sína (sem fannst vandræðalegt að dansa við mömmu fyrir framan söngvarann), þrjár litlar stelpur hlupu saman um gólfið og svo voru nokkrir sólóistar að fíla sig í botn. Allan tíman ruggaði hafið okkur fram og aftur og allir sópuðust yfir dansgólfið eftir því hvernig ölduna bar að. Strákurinn var klappaður upp aftur og aftur og allir voru eitthvað svo ... rosalega glaðir ... að einhversstaðar í allri gleðinni varð ég meyr yfir hvað þetta væri allt svo fallegt og allir svo skilyrðislaust hamingjusamir að tilfinningarnar báru mig ofurliði og ég fann skæluna hellast yfir mig.

Ég hljóp aftur í sætið mitt til að jafna mig og hemja flóðið sem var að bresta á en þegar ég hélt að þetta væri komið ...kom enn ein hamingjugusan frá dansgólfinu ...og þá gat égekki meir. Sat bara í sætinu mínu og grét yfir því hvað heimurinn er fallegur, fullur af gleði og að ég fékk að vera á staðnum til að upplifa það ...


6.3.11

Uruguay

Áður fyrr, þegar ég heyrði landið Uruguay nefnt, verð ég að viðurkenna að vanþekking mín var svo mikil að ég myndaði mér skoðun útfrá hljóðfræði nafnsins. Ú-rú-gvæ fyrir mér hljómaði eins og frumskógarland með  frumbyggjum og rassöpum sem segðu úhúhúhú-rúgvæ og hlypu uppí næsta bananatré.

Ég hitti fyrsta Úrúgvæann í Mendoza um daginn og gerði grín að þessu við hann. Hann var sem betur fer jafn fáfróður um heimkynni mín eins og ég um hans svo að þetta jafnaðist út án þess að nokkur yrði móðgaður. Hann leiðrétti misskilning um frumskógana og apana og ég komst að því að þessar fyrstu  hugmyndir mínar um landið voru svo langt frá því að vera sannar að það var eiginlega drepfyndið.

Úrúgvæ er lítið land og flatt, hinu meginn við Rio de la Plata, sem er eins og Faxaflói milli höfuðborgar Argentínu, Buenos Aires, og höfuðborgar Uruguay, Montevideo. Margir líta á landið sem eina af sýslum Argentínu því skyldleikinn milli þjóðanna og sögu þeirra er mikill. Það er einum þriðja stærra en Ísland. Íbúarnir eru þrjárog hálf  milljónir talsins og teljast þeir til fámennustu þjóða Suður Ameríku. Helmingurinn býr í höfuðborginni Montevideo, hinn helmingurinn í sveitinni. Aðalatvinnuvegurinn er sá sami og í Argentínu, nautgriparækt, búskapur og sojaræktun. Hæsti punkturinn er 500 metra há hæð. Því má eignlega segja að Uruguay sé Danmörk Suður Ameríku. Engir frumskógar og ég rakst ekki á einn apa ... en ég sá fullt, fullt af hlaupandi fótboltastrákum ...

Ég fór í fjögurra daga ferð til Uruguay, til að skoða mig um og endurnýja vísað mitt (3 mánaða dvalarleyfi). Ég var alveg viss um að ég myndi drepast úr leiðindum því allir hér í BA voru búnir að margtyggja ofan í mig að Úrúgvæ væri svo sveitó, ekkert að gera og ekkert að sjá. Það væri svo rólegt hinu meginn við flóann að ég myndi sofna við komuna þangað. Það þarf ekki að taka það fram að það er systkynarígur á milli landanna ...

 En nei! Ég varð heilluð af höfuðborginni, Montevideo. Hún minnti mig á furðulega mikið á Reykjavík. Lítil (1, 5 milljónir), róleg, allir afslappaðir, göturnar fáfarnar, sjór allt í kring. Hringinn í kringum meginpart borgarinnar var ramblan, sem má líkja við göngu- og hjólastíginn umhvefis Reykjavík. Ég gekk þar um akkúrat við sólarlag og stemmningin var yndisleg. Ramblan var full af skokkurum, fólki að veiða og svo heill her af fólki sem sat með mate-teið sitt,eitt eða með öðrum, vinum eða fjölskyldu, og fylgdist í rólegheitum með sólinni setjast niður sötrandi teið eða í ástríðufullum sleik við vin, vonandi ekki ættingja.


Eitt sem kom mér á óvart var hversu vinalegir og einlægir úrúgvæjar eru. Á fyrsta degi mínum í settist ég niður í almenningsgarði við hliðina á einhverri skrifstofugellu á bekk og skoðaði kortið mitt. Þá fór hún að spjalla og fyrsta spurningin var „ertu að ferðast sóló“ og ég auðvitað sagði „jamm akkúrat“. Hún setti upp sorgmæddan svip sem mér fannst fyndið og ég fór að útskýra fyrir henni að það væri eignlega bara það sem ég vildi akkúrat núna. Við lentum svo á spjalli um allt og ekkert eins og við værum gamlar vinkonur. 

Í strætó hitti ég strák sem fannst ótrúleg tilviljun að hitta Íslending. Deginum áður hafði hann einmitt séð myndband frá landinu! Einhverskonar landkynningu. Ég spurði hann hvort allir hefðu verið dansandi um hamingjusamir  í náttúrunni og glotti þegar hann sagði já, og að það hefði verið æðislegt.

Næst fór ég og fékk mér eitthvað að borða. Í röðinni fyrir framan mig voru krakkar í kringum tvítugt og ég skipti mér ekkert af þeim ...en þau skiptu sér af mér. Þegar þau höfðu náð upp úr mér hvaðan ég væri varð mikil gleði því einn þeirra hafði einmitt séð eina íslenska mynd „strákarnir okkar“ (af öllum myndum!) og fannst hún æði. Annar var norskur fyrrverandi skiptinemi í Úrúgvæ að heimsækja landið aftur. Hann kastaði í mig frösum eins og „Heitur Pottur“  því það hljómar víst eins og „Harry potter“ og „fitusprengd mjólk“ sem er eitthvað tengt hvítum karlkynsvökva á norsku. Að ég tali nú ekki um „draumaprinsinn“ ... drömprins á norsku, sem þýðir víst dildó. Samræðurnar í röðinni voru ansi fínar, en þegar ég hélt við myndum kveðjast kurteisislega og borða burritóin okkar í friði þá sögðu þau „ertu sóló?“ og ég sagði „já“ og þau sögðu „þá sestu hjá okkur“. Þetta var ekki spurning, það vantaði bara að þau tækju af mér diskinn og bæru hann út. Hvernig segir maður nei við kurteisi? Svo að ég sat og spjallaði við þrjá átján ára krakka sem héldu að ég væri 25 ára af einhverjum ástæðum og ég laug því að ég væri þrítug og sagði að ég hefði haldið að þau væru 22 ára. Og það var gaman! Eftir matinn buðu þau  mér að rölta með sér niðrá römbluna en ég afþakkaði og sagðist þurfa að fara niður á hostel að bera á mig sólaráburð áður en ég fuðraði upp. Sem var satt. Sólin var sterkari í Úrúgvæ útaf sjónum.

 En já,  ég var heilluð af Montevideo og hversu ótrúlega vinalegir, einlægir úrúgvæar eru, án þess að vera uppáþrengjandi.

+

Daginn eftir fór ég svo og hitti úrugvæska kontaktinn sem ég hitti í Mendoza. Hann passaði uppá að kynna mig fyrir öllum sérkennum í mat og drykk. Allt frá hamborgaranum sem þeir borða, til rauðvínsþrúgunar sem þeir drekka og ég lét hann segja mér fótboltasögu landsins í smáatriðum. Hann viðurkenndi að sér þætti leiðinlegt að landið hefði uppá lítið annað að bjóða en sólarstrendur og fótbolta og sagðist alltaf verða svo þakklátur þegar fólk tæki sér tíma til að heimsækja landið. Flestir bakpokaferðalangar sleppa Úrúgvæ á leið sinni um álfuna, sagði hann. Því landið væri ekki nógu spennandi. Þarna langaði mig til að hugga hann og sagði honum frá Danmörku sem væri alveg eins flatt en mjög vinsæll staður samt.Við röltum svo niður á strönd, þar sem allir voru skokkandi, því  æfingatímabilið er að hefjast. 


Á ströndinni sá ég strandfótboltavöll  og fullt af táningsstrákum sem lágu  á maganum og rembdust við að gera fettur með öskrandi þjálfara yfir sér. Eftir á settumst við upp í strandvarðarturn, drukkum mate og hann viðurkenndi samviskubit sit yfir því að vindgangurinn úr öllum úúgvæsku kúnum væri að gera gat á ósonlagið. Ég sagði bara já já og naut þess að sitja í heitum vindi, á hvítri strönd og hlusta á öldurnar og rembinginn í litlu fótboltastrákunum. Hugsaði heim og  líka hversu heppin ég væri að fá tækifæri til að upplifa þetta.


Daginn tók ég rútuna og horfði í þrjá klukkutíma á flatlendi á flatlendi ofan þar til ég kom til Colonia, sem er lítill krúttlegur  gamall bær. Hann var svo lítill að ég náði að labba allar göturnar á tveimur tímum og eftir  það hafði ég svo innilega ekkert að gera að ég rankaði við mér á einhverju kaffihúsinu semjandi ljóð. Ég hitti Birtuna og vinkonu hennar og við fórum út að borða. Daginn eftir tók ég svo bátinn heim um kvöldið. Við sigldum burt frá Uruguay inn í sólarlagið og þegar við komum hinu meginn í flóann tók Buenos Aires á móti okkur með öllum sínum fjórtán milljón manns og látum og allri sinni ljósadýrð.

24.2.11

Nokkrir hlutir sem eru öðruvísi hérna ...

Hér eru flækingshundar út um allt, töltandi um göturnar. Ég hef alltaf haldið að villihundar hlytu að vera hættulegar skepnum, því það þyrfti að þjálfa hund til að vera vinur mannsins annars fylgdu þeir úlfaeðli. Veit ekki hvaðan ég hef þetta, en svo virðist ekki vera. Þetta eru vænstu grey sem vappa einir um göturnar, allar stærðir og gerðir. Borða væntanlega rusl og drekka úr pollum og brunnum býst ég við. Og enginn pælir í þessu fyrr en þeim er bent á þetta af evrópskum túristum.

Hér sér maður enga ketti.Einu kettirnir sem ég hef séð eru flækingskettirnir í grasagarðinum og Recoleta kirkjugarðinum

Hér má maður ekki alltaf henda klósettpappírnum í klósettið. ÓNEI!!! hugsaði ég fyrst og mundi eftir sögu af einhverjum skiptinemum í háskóla heima sem þurfti að tala við útaf því þau hentu alltaf klósettpappírnum í ruslið.Þótti viðkæmt mál.Og við hlógum að grey útlendingunum sem kunnu ekki að fara á klósettið. Nú hlæ ég ekki lengur heldur hendi helvítis pappírnum í ruslið þegar það á við. Það á við í byggingum með gamlar pípulagnir sem stíflast auðveldlega. Í Mendoza var þetta á öllum stöðum,gömlum sem nýjum,svo að þetta getur að öllum líkindum líka tengst vatnsnotkun.

Hér drekka fáir kaffi og almennt er kaffi vont, nema á einstaka kaffihúsum. Drekka bara sitt Mate sem er auðvitað miklu hollara.

Hér borðar fólk kvölmat milli tíu og tólf á kvöldin. Og fer að sofa seint að nóttu, en vaknar samt snemma og tekur sér ekki siestu. Skil það ekki.

Hérna leggjast karlmenn líka undir hnífinn og ég hef séð mann með fyllingu í kynnum og vorum og ég vona að það hafi ekki verið meira.

Hér þarf að gera dauðaleit að kókosmjólk og kakói.Virðist bara varla vera flutt inn.

Það eru fleiri svertingjar heima á Íslandi en í Buenos Aires. Einvher sagði að þessi minnihluti hafi verið til en hann var allur sendur í fremstu línu á vígstöðvarnar í nokkrum stríðum og þurrkaðist því út. Sel það ekki dýrara en ég keypti það og bið um leiðréttingar.

Skiptimynt er af skornum skammti þannig að maður má alls ekki gefa hana betlurum. Annars kemst maður ekki í strætó. Þá er bara betra að vera bara grand við betlarann og gefonum í seðlum (60 kr seðilinn til dæmis).

Óstaðfestar heimildir herma að það sé mun fleira af konum en körlum í þessari borg. Sem ýtir enn frekar undir machoismann og kærustufjöldann per mann.

17.2.11

Subte

Það kostar cirka 35 krónur í neðjanjarðarlestina í Buenos Aires, niðurgreitt af borginni auðvitað. Á meðan hækkar kjötverðið svo mikið að hinn almenni Argentínubúi hefur þurft að breyta mataræðinu. Hann getur þó alltaf treyst því að komast til vinnu fyrir slikk.

Ég nota venjulega ekki neðanjarðarlestina. Ekki útaf því að hún er skítugt, sem hún er. Heldur ekki út af því að hún er hættuleg,sem hún er ekki. Bara mikið um vasaþjófnað þar eins og í flestum mannmörgum neðanjarðarlestum. Mér finnst bara best að ganga, þótt það taki miklu lengri tíma. Átta mig betur á hvernig landið liggur og borgin virkar með því að ganga alla leið frá A til B.

Það fylgja því auðvitað aðrar hættur að ganga. Síðan ég kom hingað hefur það einu sinni gerst að ég hef gengið inn í eitthvað vafasamt. Segjum einu og hálfu sinni. Og það er ekki nokkur leið að ég hefði getað vitað það fyrirfram ... held ég. Var að ganga eftir götu fullri af ágætis hótelum og veitingastöðum þegar hún allt í einu breyttist í eitthvað lestarslys þar sem allir sátu á dýnum á götunni með bjór og sígó, í rusli og brotnum rúðum. Þýðir ekkert að panikka, bara best að gefa í botn og láta eins og maður sér læknir án landamæra á leiðinni í vitjun. Ég þurrkaði samt af mér svitann þegar gatan varð gæfulegri á ný.

Í kvöld þurfti ég að fara of langt til að geta gengið það á góðum tíma svo að ég tók neðanjarðarlestina á háannatíma. Ríghélt um töskuna mína, enda búin að heyra ansi margar þjófnaðarsögur úr subte-inu á einni viku. Fylgdist svo grannt með og beið eftir því að verða vitni að vasnaþjófnaði í kringum mig eins og ég væri í dýragarðinum að bíða eftir því að flóðhesturinn kæmi upp til að anda. Hafði þrjá drengi sterklega grunaða enda fannst þeir horfa grunsamlega mikið í kringum sig ... og á mig. Skammaðist mín svo innilega þegar allir þrír gáfu betlara ölmusu sem ég sjálf þóttist ekki skilja. Kjáni ...

Á leiðinni heim kom annar betlari inn í lestina og um leið og hann kynnti sig og fór að blaðra um peninga leit ég niður á gólfið. En ekki lengi, því þessi sýndi listir sínar og jugglaði fimm boltum á miðju lestargólfinu, með lítið sem ekkert pláss.Hann var svo flottur að mig langaði að taka mynd á símann minn, en fattaði svo að þetta var ekki staðurinn til að auglýsa innihald hliðartöskunnar. Ég naut stundarinnar í staðinn. Hann var svo flottur að allur vagninn klappaði þegar hann kláraði og ég borgaði fyrir mig.