Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

29.1.06

Chicago

Þá er klukkutími í að ég leggi af stað í ferðalag. Förinni er heitið til Chicago á námskeið í Microstrategy, sem er svona datamining tól eitthvað, notað til að veiða upplýsingar uppúr gagnagrunnum til að nýta í skýrslur um hver sé að nota vörurnar okkar, hvenær, hvar og hvernig, sem við svo aftur notum til að markaðssetja vörurnar okkar á smartari hátt.

Ég er ekki alveg í gírnum fyrir ferðatösku hringl og 2 klukkutíma flug og svoleiðis. Svo er þetta ekki alveg eins spennandi og það hljómar. Námskeiðið byrjar á mánudegi, 9-5, og endar með prófi á föstudegi. Vei. Ofan á það eru höfuðstöðvarnar í Chicago á flugvallarsvæðinu sem og hótelið mitt. Þannig að ég býst ekki við að sjá mikið af þessari merkilegu borg. Gleymum því svo ekki að það er víst skítakuldi í Chicago. Vei.

En hei, þetta er þá allavegana frí frá daglegu vinnuamstri sem hefur ágerst síðustu vikurnar. Hótelherbergið mitt er stærri en stúdíóíbúðin mín og fylgir Nintendo tölva með. Þetta verður ágætis tilbreyting.

Í gær fór ég svo út á lífið með Díönu markaðsstjóra og vinum hennar. Tilgangurinn var held ég að reyna að koma mér saman með einhverjum af vinum hennar... hún er nota bene 38 ára svo að þetta var dáldið þroskaður hópur.

Þarna var amerískur olíbraskari í Kazakstan, nágranni hennar sem gerir eitthvað merkilegt og á mjög flott húsgögn, reið lesbía sem instantly líkaði illa við mig og átti það til að ganga burt þegar ég yrti á hana og svo 45 ára ferðalangur sem reglulega tekur sig til, selur aleiguna og siglir hringinn í kringum hnöttinn á seglbát eða klífur fjallstinda í Suður Ameríka.

Ég veit ekki hver þeirra var skotmarkið fyrir kvöldið, en ferðalangurinn ferðaðist á eftir mér hvert sem ég fór. Það var pínu óþægilegt, hann leit út eins og gamli forstjórinn Peter Larsen á E, gat aldrei staðið kjurr og talaði við mig um að hann langaði að fara planta rótum. Olíubraskarinn var öllu viðkunnalegri. Fór samt pínulítið í taugarnar á mér hvað hann sló mikið um sig. Það voru fyrirhuguð fasteignakaup í Vermont eða Frakklandi, ´eigum við ekki að skella okkur öll til Króatíu í næsta mánuði´, 'heyrðu..ég segi bara bílstjóranum mínum að koma og keyra okkur milli staða í kvöld', múturnar í olíuviðskiptunum og svo snobb snobb tal um alla veitingastaðina sem maðurinn borðar á. Svoldið svona Alfa lið allt saman. En þetta var gaman.

Leigubílstjórinn minn heim fór svo á trúnó um að hann hefði aldrei getað orðið neitt eins og systkini hans því hann gat ekki lært. Ég sagði honum frá lesblindu og hann sýndi mér hvernig hann skrifar... hann skrifar allt afturábak, þess vegna hefði honum gengið ágætlega að læra arabísku! Ég dæmdi hann með mjög sérstaka námsörðugleika.

En jæja... þá er best að hafa sig af stað...

20.1.06

Pub Tour

Fór á Pub-Tour (MIT-bjórkvöld) í kvöld með Rebekku og Veru og eyddum kvöldinu í að spila pool. Ég var hundaheppin og kom út eins og skandínavískur pool-pro í fyrstu umferð, skaut niður kúlur hægri vinstri! Var svo impressive að þrír þýskir ofurnördar, höfðinu lægri en ég, báðu mig um að vera fjórði maður í liði. Sem ég auðvitað þáði.

Ég þurfti ekki að gera mikið. Meðspilari minn var rafmagnsverkfræðingur frá München, reiknaði út kósínus og sínus á kúlurnar og skaut þær niður hverja á eftir annari með mjög svo þýskri nákvæmni á meðan vinur hans, Master í stærðfræði frá München, reiknaði út skriðþungann frá hvítu kúlunni á þær tvíleitu. Þetta var afar tvísínt á köflum, en leikurinn gekk fyrir sig eins og stutt hnitmiðuð tveggja manna rökræða og var búinn á innan við tíu mínútum. Ég fékk að gera tvisvar og skaut enga kúlu niður. En þeir fóru gersamlega hjá sér yfir hæð minni, skandínavískri valkyrju ímynd og einstaklega vel talaðri þýsku.

Allt í allt kósí kvöld.

17.1.06

E!

Ég var að átta mig á því í gymminu áðan þar sem ég horfði á fræga fólkið á rauða teppinu tala um hvaðan fötin þeirra kæmu, hver nýjasta myndin þeirra væri og hvaða leikstjórarnir og producerarnir hefðu breytt lífi sínu að ég veit meira um hvaða fræga fólkið í Hollywood er að gera en hvað er að gerast í alheimsmálunum!

Ég veit að Will og Grace eru á loka sísoninu sínu, Steven Spielberg er svooo gefandi karakter að vinna með að allir sem það gera fyllast auðmýkt í garð meistarans, Lindsey Lohan er að jafna sig eftir anorexíu og áttaði sig ekki á hve hætt hún var komin, Paris Hilton er að stofna næturklúbbakeðju og Mariah Carey er alltaf sluttí við öll tækifæri. Döh... ég er alveg á hraðri leið til helvítis og heilastopps!

Ég veit að ég get horft á Espn en ekki E! heima hjá mér... en alls staðar annarsstaðar bombarderar þetta mig og er orðið að eðlilegum veruleika. Þetta er auðvitað ástæðan fyrir því að mér finnst ég ekki getað talað um heimsmál við neinn. Það fylgist enginn með þeim, og ekki ég heldur. Skilnaður Jessicu Simpson við Nick og vandræðin í sambandi Britney Spears og Federlines geta hins vegar allir kommentað á!

Ég hefði betur gert eins og í London og verið sjónvarpslaus í 6 mánuði.

16.1.06

Skítakuldi

Nýtt ár byrjar með auglýsingum um nýjar megrunarmatvörur, íþróttatæki á útsölu, diet þetta og diet hitt. Ég er búin að skrá mig í líkamsrækt eins og allir hinir og byrjuð að brenna af mér bjórvömb síðasta árs.

Útsölurnar eru löngu byrjaðar og er sú vinsælasta án efa semi-annual útsalan hjá Victorias Secret. Hundruðir kvenna með hausinn ofan í körfum fullum af G-strengjum og 10 brjóstarhaldara raðaða á handlegginn. Ég keypti mér þrjá, maður er auðvitað að græða á tá og fingri!

Ég fór með Rebekku í VS í vorveðrinu gær og skildi hana þar eftir klukkutíma kaup til að mæta í ræktina. Tveimur tímum seinna þegar ég var búin með prógrammið var hún ennþá þar, með tvo risastóra poka fulla af nærfötum og snyrtivörum. Búin að kaupa jólagjafir fyrir næstu jól og allan fjandann. Við fórum svo á Vox að borða og skála fyrir góðum kaupum og kíktum aðeins út á lífið.

Vaknaði svo í morgun við vind og -5 stiga frost. Skítakuldi. Ég þurfti að labba í gegnum kringluna til að komast í ræktina því að eyrun voru að molna af mér.

Ekkert annað að frétta. Nema ég ætti að leiðrétta smá misskilning. Strákurinn sem ég fór með á gay bar um síðustu helgi er gay. Ekki nýr ástarneisti í mínu lífi... nei nei Það voru ansi margir sem misskildu þetta! Kannski bara óskhyggja:)

10.1.06

Uppgjör ársins 2005

Árið 2005 var án efa lengsta ár sem ég hef upplifað á mínum 28 árum. Það flutu svo mörg lönd og svo margt fólk í gegn, ógrynni af gleðistundum, þónokkuð af erfiðum tímum.

Á árinu bjó ég í þremur löndum og heimsótti þrjú til viðbótar, eignaðist eitt heimili en bjó svo á tveimur öðrum. Frá sólskinsholunni á Ásvallagötunni til dömpsins í Stepney Green til gamals stúdíósins í Back Bay Boston. Frá borulegum Bretum til ylhlýrra Kana. Eina stundina var ég að hakka í mig Tikka Masala í Soho eftir heilan dag á British Museum og þá næstu var ég að háma í mig fylltan sterakalkún og horfa á ruðningsbolta á Thanksgiving. Heilt haf þarna á milli alveg:)

Ég upplifði London með Bryndísi og félögum í New Cross að ógleymdum öllum heimsóknunum frá Arnari og fjölskyldu. Ég fagnaði frumburði bróður míns rétt eftir bresku kosningarnar í Belfast með Kötu. Kleif Sauratinda með pabba og bræðrum hans. Keyrði til Kanada og fékk mér köku. Keyrði aftur til Kanada á menningarhátíð í Montreal. Hjólaði frá Kaupmannahöfn til Helsingör í þriðja gír alla 60 kílómetrana. Þeysti um New England með Miriam og Jóni Árna. Kynntist hinni einstöku Rebekku og hélt svo í fyrsta skipti í fimm ár heilög jól án Arnars.

Jólafríið heima á Laugateignum var lokahnikkurinn á árinu. Ég er ekkert að verða gömul og væmin þegar ég segi að fjölskyldan og vinirnir heima skipti mig meira máli en þau ábyggilega grunar. Það urðu svo mörg uppgjör hjá mér á síðustu tveimur vikum ársins að ég viðurkenni fúslega að ég var klökk þegar klukkan varð tólf á Gamlárskvöld. Dáldill söknuður en samt mjög fegin því að þetta lengsta ár í heiminum væri liðið og við tæki nýtt.

Ég veit satt best að segja ekki hvað gerist nákvæmlega á þessu ári, hvenær ég kem heim og hvað ég geri eftir það. Ég er auðvitað með plan A og plan B sem ég mun þróa á næstu tveimur mánuðum. En ég held að þetta ár verði alveg jafn viðburðarríkt og það liðna, en kannski ekki alveg jafn helvíti langt.

En jæja, annars er ekkert sérstakt af mér að frétta. Eftir að ég lauk við flugleiðamatspúsluspilið á miðvikudaginn hef ég mest til unnið og lesið. Kynntist reyndar einum nýjum strák um helgina og endaði með honum og vinum hans á gay dansklúbbi rétt hjá mér. Þar var mikið um nakta torsóa, sumir hefðu betur mátt vera í bolnum samt!