Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

31.5.05

Boston

Þetta er eins og himinn og haf, Boston og London, fyrir utan að nöfnin eru eingöngu með 'o' sérhljóðum. Hér er hljóð á skrifstofunni. Hér talar fólk ekki í hringi allan daginn. Hér borðar fólk mikinn mikinn sykur. Hér fær maður stóra skammta...

Á einni viku hefur mér tekist að finna mér pínulitla stúdíóíbúð í hjarta Boston, beint á móti Boston RedSox stadíuminu ef það hringir bjöllum hjá einhverjum öðrum en mér. Auk þess hefur mér tekist að komast yfir a room with a view OG kennaratöflu nota bene á skrifstofunni:) Hljómar svaka fancy en á hana ekki ein. Hinir tveir eru samt heima á Íslandi í sex vikur svo að ég hef pleisið út af fyrir mig og ég fékk besta staðin því kollegum mínum líkar illa við víðáttu og tóku skýrt fram að þeir vildu veggútsýni. Svo að á heitum dögum sit ég í blástrinum frá glugganum, næ smá base tan-i á hnakkan og get fylgst með innkaupurum. Bjútífúl! Ég get líka hrækt á kollin á fólki ef ég er í vondu skapi og falið mig svo undir sillunni. Bjútífúl!

Um helgina fórum við Miriam og Jón Árni í óvissuferð um norðurhéruð Bandaríkjanna. Við byrjuðum á að fara á gífurlega sérstakan Diner, keyrðum svo til White mountains og fórum í skíðakláf uppá Canon fjall, keyrðum svo þaðan í gegnum sveitahéruð New Hampshire, villtumst og fundum okkur svo Mótel í einhverju litlu krummaskuði. Á leið okkar frá mótelinu yfir á matsölustaðinn komumst við svo að því að það var mjög svo hávær lest sem keyrði í gegnum bæinn, og lestarteinarnir voru beint fyrir utan bakgluggann okkar. Við fylltumst skelfingu. Seinna um kvöldið á stuttri leið frá mótelinu yfir í sjoppuna hinum megin við götuna var 'jíha-að' tvisvar sinnum frá mismunandi áttum á mig og Miriam. Sami pikkuptrukkurinn samt. Gaurinn gerði sér svo ferð í sjoppuna og við földum okkur bakvið hvítvínsrekkann. Þegar við komum að afgreiðsluborðinu spurði afgreiðslustúlkan okkur hvort að hann Jack hafi verið að abbast upp á okkur, við sögðum henni frá jíha-inu. Þá sagði hún "Ohhh, That Jack, he's no good, and when him and Tim get together....ohhh their nothing but trouble" og við tókum eftir því hvað hún var með ljótar tennur. Svo við brostum, hlupum yfir götuna og læstum okkur inní herbergi.

Daginn eftir keyrðum við svo hálfa leið uppá Mt. Washington. Fengum geisladisk með frásögn. Frásögnin var nú ósköp lítil en við fengum ansi góða kennslu í því hvernig á að keyra upp óslétta vegi, og hvernig best er að höndla bremsurnar á leiðinni niður! Magnað. Svo fengum við bumpersticket með "I've climbed Mt Washington" og skírteini sem lýsir Jón Árna "King of the montain". Magnað!

Þar sem við vorum á undan áætlun var látið undan hlóðlátri en ákveðinni bón minni um að fara til Kanada. Svo að við keyrðum í gegnum óbyggðirnar til Kanada, fengum stimpil, sáum hvar jólatréin eru ræktuð og borðuðum köku í Courticook. Á leiðinni heim týndumst við svo og vorum loks tekin fyrir of hraðan akstur! Mér fannst þetta auðvitað bara frábært því þetta toppaði þessa amerísku daga mína. Við sluppum við sekt og fögnuðum með því að fara á al-amerískan skyndibitastað.

Þannig að, eftir vikudvöl í USA er ég búin að fara til 4 fylkja og Kanada! Ansi vel af sér vikið bara:)

19.5.05

Síðasta kvöldið í London

Ef ég væri með sjónvarp, þá væri ég að horfa á undankeppni Eurovision núna. En ég er ekki með sjónvarp og ég er að fara að flytja út á morgun. Ég á að vera að þrífa. Ég var að þrífa og tók þessu aðeins of alvarlega og nú er allt í klessu. Ískápsskúffur í vaskinum og hreingerningargræjur uppá öllum tveimur borðunum. Ætla ekki að vera lásí leigjandinn sem rétt strýkur af gólfunum. Fyrir neðan mína virðingu. Neinei, ég er ÜberSteinunn, ég geri ekkert með hálfri hendi. Geri þetta bara með einni hendi því að hvítvínsglasið þarf að vera í hinni svo að ég geti actually gabbað sjálfa mig í að halda að það að þrífa sé partý.

Fékk kveðjupartý í gær, það var nú meira stuðið:) Fékk svaka sætt kort sem allir höfðu skrifað undir, hamingjuóskir og fyrirfram saknaðarkveðjur og allt. Hafði keypt mér RISA-stóra ferðatösku um daginn eftir að hafa prufupakkað (nörd) og komist að því að ég átti of mikið af dóti! Þannig að það var sjón að sjá mig í túbunni um kvöldið pínu létt að drattast með heilt fjall af tösku að vera.

Úff úff ég hlakka svo til að setjast upí vélina á morgun og kveðja þessa tedrykkjumenningu, hitta mömmu og pabba og arnar og familíuna og henda mér svo uppí næstu vél til Bandaríkjanna, þar sem ég veit ekkert hvað næsta ár ber í skauti sér. Kannski verður gaman, kannski verður leiðinlegt, kannski kem ég heim með hamborgararass, kannski giftist ég kana og eignast amrísk börn ... eða eitthvað! Hvað sem verður að þá eru allir einstaklega velkomnir að heimsækja mig og fá gistingu eigi þeir/þær leið um Boston. Það er nú eitt sem ég á eftir að sakna frá London, allur gestagangurinn.

Allavegana.... íbúðin þrífur sig ekki sjálf...

14.5.05

Arnar í heimsókn

Frekar leiðinlegtveður í dag, stefnir allt í rigningu. Samkvæmt veðurspánni þá á þetta að vera svona þangað til að ég fer. Ég kýs að líta á það sem svo að guðirnir séu að gráta mig út úr Bretlandi. Skal veðja að þeir taki á móti mér með sól og lúðrablástri í Bandaríkjunum;)

Arnar er kominn í heimsókn í 3 daga verðskuldað frí. Hann fór að mínum óskum og tók bara með sér eitt outfit til skiptanna svo að ég þyrfti ekki að borga formúgu fyrir að senda kassa heim. Svo treð ég töskuna hans stútfulla og mæti svo sjálf heim á föstudaginn með litlu flugfreyjutöskuna í eftirdragi. Algjör prinsessa. Djók, ég er búin að kaupa nóg hérna úti til að fylla töskuna hans og mína og fleiri til.

Fórum í gær niðrí Canary Wharf, sem er eins og litlu Bandaríkin í London. Ekkert nema massív háhýsi, risa kringla og áin Thames. Yndislegur staður, því þetta er svo nýtt að það er eiginlega engin umferð eða hávaði. Svo liggur CW við Thames, þannig að maður getur setið við vatnið í sólinni, eða farið á bátaveitingastaði og fleira og fleira. Við röltum um svæðið, fengum okkur að borða og drifum okkur í bíó á "The interpreter"... sem byrjaði vel, en leystist svo upp í væmna klisju. Hakan á Sean Penn titraði og hann grét og allt saman. Myndin var bara svo ferlega ótrúverðug. Hún hefði verið trúverðugri ef Nicole Kidman hefði verið svört, Sean Penn hefði misst konuna sína 6 mánuðum áður en ekki 2 vikum áður, þau hefðu ekki hegðað sér eins og þau væru ástfangin eftir 2 daga kynni og ef Nicole hefði sem túlkur sameinuðu þjóðann ekki verið með clearance inní öruggasta öryggisherbergi í byggingunni. Því ef hún var með það, þá voru allir hinir 200 túlkarnir með það líka... og þá er þetta ekki beint öruggasta öryggisherbergið...hahmha. Nú ætla ég að vona að ég hafi ekki skemmt myndina fyrir einhverjum, en ef svo er, þakkiði mér þá fyrir og fariði frekar á "Hitch Hiker's Guide to the Galaxy"...

11.5.05

Ég veit varla hvar ég á að byrja, það er svo mikið af fréttum! Um síðustu helgi fór ég til Belfast til að hitta Kötu frænku. Eyþór bróðir kom kvöldinu áður til að millilenda á leið sinni til Austurríkis. Eftir að hafa farið með hann út að borða og drukkið tvö hvítvínsglös fattaði ég að ég myndi ná 3 tímum í svefn áður en ég þyrfti að leggja af stað í langreysu. Ég lagði af stað 4 að morgni þegar verið var að telja síðustu atkvæðin í kosningunum og samgladdist með bísltjóranum yfir nýja gaurnum í mínu hverfi þótt ég hafi ekki vitað fyrr en 2 dögum áður að það væru kosningar í aðsigi(kosturinn við að hafa ekki sjónvarp) og vissi ekki rass útá hvað hann gekk, en hann kunni að koma fyrir sig orði!

Ég kom á Gatwick klukkan fimm um morgun og hneykslaðist yfir ellilífeyrisþegum í vískísmökkun á þessum ókristilega tíma, sofnaði í flugvélinni og reddaði mér með naumindum á bus centralið í Belfast þar sem ég skildi ekki írskuna. Steinsofnaði í íbúðinni hennar Kötu á meðan hún fór að kenna. Tölti niðrí bæ eftir að ég vaknaði og varð furðulostin yfir öllum Sin Féin kosningaspjöldunum og Sin Féin solicitors og über bresku kosningaspjöldunum og írskum og breskum fánum sem blöktu á víxl milli hverfa. Ég verð að viðurkenna að ég taldi að þessi skitping væri ekki jafn drastísk á okkar dögum og hún var fyrir 10 árum síðan. Sadly mistaken.

Á laugardagsmorgninum var ég svo vakin af mömmu sem tilkynnti að hún væri bissí við að verða amma. Hildur var komin með hríðir...og við tók meira en hálfs sólarhrings fæðing sem fyrir mér og Kötu virkaði eins og afkaplega löng Eurovision keppni með öllu tilheyrandi. Halldór Kári Þórhallsson kom síðan í heiminn um 2 leitið að dönskum tíma. Ku hann vera íþróttalega vaxinn og vöðvastæltur líkt og faðir hans;) og rólyndur líkt og móðirin. Afinn ljómaði auðvitað eins og jólatré við að fá nafna:) Ég fékk svo sendar myndir í dag af þessum nýja fjölskylduskartgrip og verð að segja að hakan og augabrúnirnar eru alveg í föðurlegginn:)

Annars er það af mér að frétta að ég er að fara að flytja til Bandaríkjanna í næstu viku. Til Boston Massachusets að vinna á USA skrifstofu fyrirtækisins næsta árið. Þetta er búið að vera í burðarliðnum í nokkrar vikur og er loksins komið á hreint. Er ferlega spennt yfir þessu öllu saman en svitna eins og svín núna við að klára allt sem ég þarf að klára hér. Eins og það var erfitt að stofna reikninga hérna að þá er jafn erfitt að loka þeim aftur:) Ég flýg heim til Íslands föstudaginn 20 maí, næ einum dag með familíunni og flýg svo á sunnudeginum út til Boston, þannig að það er enginn tími til að dúlla sér með vinum og kunningjum. Hinsvegar kem ég heim í sumarfrí í Ágúst og ætla mér þá að ná quality tíma með öllum heima, synda laugardalslaugina þvera og endilanga og borða pulsur, þorsk og roast beef samlokur á hverjum degi:)