Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

28.1.05

BUTT

....Nema hvað... 4 tímum eftir að ég mætti með reikninginn stílaðann á mig og mitt heimilisfang, sem var það eina sem stóð á milli mín og bankareikningsins míns... hringir ekki þjónustufulltrúinn minn Arvie í mig. "Steinunn, you know how you gave me the bill addressed to you at your current address... well there was a typo in your name and usually we would look past it.... BUT, I'm sorry we have to ask you to call the company and make them send you a new bill with your name correct and then, when you bring that bill, we can open your account.... really sorry (sagt á mjög ósannfærandi hátt)". Ég var víst "Halldorsdoppir" og það messaði öllu kerfinu upp!!! Og ég gat ekki mætt með annað "bréf" stílað á mig með réttu nafni... það varð að vera reikningur! Sem ég mætti svo með í dag...

Svo er ég endlich búin að koma miðstýrðu hitakerfi í fullsving í litlu kuldaholunni minni, stjórnað frá gashitaranum mínum. Fékk mig fullsadda klukkan tvö um nótt. Strunsaði milli herberja í náttfötum með húfu á höfðinu, staðráðin í að útrýma öllum glufum. Tróð viskustykkjum og extra þykkum Bounty í þær, settist uppá eldhúsborð andspænis gashitaranum, starði lengi vel á hann illum augum... fiktaði svo í honum í nokkrar mínútur... og viti menn, nú er tölvunarfræðingurinn kominn með dagshitunarprógramm á ofna og vatn. Húrra fyrir mér!

Nú er íbúðin mín sjálfri mér og gestum bjóðandi... sem er mjög hentugt þar sem ég er að host-a náttfatapartý annaðkvöld... umfang þess hefur vaxið á einum degi úr þremur í fimm....og það er búið að kaupa andlitsmaska, ég provida augabrúnavaxið, Bryndís mætir með augabrúnalitinn og svo ætlum við allar að elda saman og drekka. Þrjár íslenskar, ein finnsk og ein pakistönsk... í náttfötum, að borða og snyrta okkur og hlæja í kór. Við verðum eins og Benetton auglýsing.... er skrítið að vera 27 ára og halda sleepover partý??? Á ég ekki að vera að sjá um sleepover partý fyrir miklumiklumiklu yngri krakka á þessum aldri???

25.1.05

The Buttless day

Uppástunga mín um að Bretar ættu að taka frá einn dag á ári hverju þar sem þeir mættu ekki segja orðið "but" féll í kramið. Hann myndi auðvitað vera kallaður "The Buttless day". Þetta var eftir bankaferðina, þar sem ég mætti með vegabréf, ljósrit af vegabréfi, meðmæli frá vinnuveitanda, staðfestingu á árstekjum, staðfestingu á heimilisfangi frá leiguskrifstofunni sem og leigusamninginn minn... og var tjáð að það var gott að ég mætti með þessar upplýsingar. "BUT", bankinn okkar viðurkennir ekki vinnuna þína þótt hún sé hér í næsta húsi við okkur, því að þeir eru ekki í viðskiptum við okkur. "BUT" þrátt fyrir að vera með staðfestingu á heimilisfangi þá verðurðu að mæta með reikning sem er stílaður á þig á þessu heimilisfangi. Ég beið bara eftir að vera tjáð að mamma mín hefði þurft að hafa tekið við fyrsta Tinnabauknum við opnun útibúsins í Shropshire til að teljast verðugur viðskiptavinur.
Þá sagði ég mjög svo brosandi og hlessa: "Mælirðu því með því að ég fari í viðskipti við sama banka og vinnan mín, ráðleggur þú mér það". Og hún sagði já!!! Og þá sagði ég að ég væri með uppástílaða reikninga á sjálfa mig heima hjá mér og að nei ég væri ekki í skuldum, bara mjög vel stæð, forritari jájá og benti á árstekjurnar mínar og sagðist myndu taka hennar ráðum. Þá kom annað "BUT" í skrokkinn og hún tók niður allar upplýsingar....þannig að ef það kemur ekkert annað "BUT" á morgun, þá er ég víst verðug bankareiknings.
Þessi "BUT" eru auðvitað bara toppurinn á ísjakanum. Á tveimur vikum hef ég fengið svo mörg "BUT" að ég býst aldrei við því lengur að nokkuð geti gengið fyrir sig eins og smurt. Það er eins og þessar elskur vantreysti því ástandi. There has to be a "BUT" and then we are safe! Um daginn fékk ég fyndnasta "BUT" ever ... en það var þegar að vinnan mín tjáði mér að þeim þætti leitt að ég væri dáldið blönk vegna þess að ég væri ekki búin að fá útborgað frá þeim en ég yrði að vera með bankareikning. Þá sagði ég "BUT" á móti á þeim forsendum að ég væri með reikning á Íslandi, þeir væru með útibú á Íslandi... þannig að! Þá sögðu þeir "BUT of course.... BUT" máttu ekki millifæra á mig nema ákveðinn Pétur væri staddur á skrifstofunni! "BUT those are the rules".

24.1.05

Cup of Tea

Í Beikon&Egg eru allir miklu kurteisari heldur en heima. Gott eða slæmt, því þegar þeir vilja ekki vera dónalegir þá verða þeir svo kurteisir að það í sjálfu sér er dónalegt. Ég er mjög ókurteis á þeirra mælikvarða... það hefur verið staðfest. Fyrstu dagana í Holborn að þá voru allir að spurja hvort ég vildi ekki te þegar þeir fóru að laga sér te. Voða góð þjónusta. En þegar ég fékk mér te, þá datt mér ekki í hug að bjóða neinum... klakinn hefur kennt manni ýmislegt... Sé Brynjar í anda, standa upp frá borðinu sínu og bjóðast til að laga handa mér te því að hann sé á leiðinni... haha! Eftir viku af tei þá kallar Tim á eftir mér þegar ég er á leiðinni í eldhúsið "don't offer to make anyone else a cup Steinunn"... og þá hrökk úr eigin heimi and entered the world of kurteist fólk. Tim var sá eini sem þorði að segja þetta því hann er hvort sem er alltaf dáldið fúll á móti...fyrstu dagana eftir þetta þá vildi enginn te þegar ég bauðst til að laga, vitandi innst inni að mig langaði ekki að laga handa þeim te. Þetta er orðið betra núna og fólk er farið að treysta mér fyrir þessu og viðurkennir að ég hafi séð að mér...
Ég er samt ennþá ekki komin uppá lagið með "hvernig hefur þú það"....og ég nenni því varla...fimmtán manns á hverjum einasta degi og öllum er hvort sem er sama... tímasóun...
Og hvað er málið með að fara eins og köttur í kringum heitan grautinn? Það vantar allt sem heitir hreinskilni, að tala tungutæpilaust, eyða ekki orðum, hitta beint í mark og svo framvegis... því allir eru að passa svo vel uppá að vera ekki leiðinlegir við aðra...tímasóun númer tvö...
En þetta lið gerir samt ágætt te:)

23.1.05

Frystiklefinn minn

Nú er ég búin að vera al...al...alein í íbúðinni minni í viku. Íbúðin mín er fín, kósí og hugguleg en algjör íshellir. Ég ímynda mér frystiklefa beint fyrir neðan mig því hin auglýstu viðargólf (plastparkett) eru ávalt undir frostmarki, glerið er einfalt og ég á þriðjuhæð og ég finn gust frá glugganum þótt hann sé lokaður. Ég þakka guði fyrir að klósettið er með viðarsetu. Ég sem laug að móður minni þegar hún sagði mér að taka með ullarsokka vegna þess að það væri svo kalt í London. Já ég laug... og nú sé ég eftir því. Svanadúnssængin mín hefur rembst við að halda á mér hita og þrátt fyrir að vera uppdúðuð undir henni að þá var gærnóttin fyrsta nóttin sem mér var hlýtt uppí rúmi og þurfti ekki að sofa í náttbuxum.

Enda var ég alveg búin að fá nóg. Reif greyið Bryndísi uppúr rúminu þunna eftir að hafa staupað slatta af Brennivíni í íslendingabondingi kvöldið áður og héldum við beinustu leið í næstu IKEA verslun. Sem var langt langt í burtu. Við fylltum heila innkaupakörfu af gólfefnum og rúmdóti og fundum svo eitt risastórt grænt og þykkt tveggja metra langt teppi og sannfærðum hvor aðra að við myndum alveg redda þessu í gegnum einn sporvagn, eina lest og tvær túbur. Við tókum sporvagninn niðrá lestarstöðina þar sem ég fann síðan leigara til að keyra okkur beinustu leið uppað dyrum í Stepney Green. Leigubíllinn kostaði einn þriðja af öllu sem við keytpum í IKEA, en ég borgaði hann brosandi:)

Sólrún og María Aminustelpur komu svo til okkar í húsverming og hjálpuðu mér og Bryndísi að koma mér betur fyrir...og svo hjálpuðumst við allar við að drekka rauðvín og hvítvín og bjór og borða indverskt partýsnakk og kex...og ég komst að því í morgun að einn af ókostunum við að búa einn, er að vakna upp einsamall og þunnur með engan til að hugga sig nema íbúfen og vatnsglas. Og því hef ég strengt heit þess efnis að ég mun ALDREI drekka meira en tvo bjóra NEMA að það gisti einhver hjá mér. Þetta er kannski pínu hættuleg regla ef misnotuð á hinn veginn...

14.1.05

one week down...

Dagar eins og þessir eru vinsamlegast beðnir um að koma með minnst tveggja mánaða millibili. Ég mætti stundvíslega klukkan 10 og var tilkynnt að ég hefði seinkað hópfundi um heilan klukkutíma. Ástæðan fyrir þessu var samt sem áður póstþjónaklúður sem gerði það að verkum að ég fékk ekki póstinn um fundinn fyrr en klúðrir var lagað... og þá var ég svo uppnumin yfir því að fólk hefði verið að reyna að ná í mig án þess að ég vissi af því að ég las varla yfir póstinn. Í sama póstþjónaklúðrinu í gær tókst mér að missa öll þau sexhundurð skeyti sem í pósthólfinu mínu voru og ég hafði ekki nennt að flokka ... og ég meika ekki að hafa samband við einhverja vv og segja "heirru pósturinn með öllum id-unum sem þú sendir mér í gær og ég svaraði að ég væri að vinna í, hann er horfinn og ég var ekki að vinna í honum þanig að gætirðu send mér hann aftur...döh".
Svo tók ég í fyrst skipti lestina í vitlausa átt, sem var slæmt, því ég var þá þegar orðin of sein að skoða leiguíbúð og lét leigusalann bíða á lestarstöðinni eftir mér í hálftíma.
Góðu fréttirnar eru samt þær að ég ákvað að skella mér á íbúðina og flyt inn á mánudaginn. Mér leist við fyrstu sýn vel á hverfið sem er rétt inní zone 2 (Stepny Green), en samt mjög miðsvæðis. Rólegt hverfi og mun ég flytja inní 1930 blokkaríbúð, gaman gaman. Fékk síðan smá panikk attack yfir því að ég mun í fyrsta skipti á ævinni búa ein...alalalalein! Kom sjálfri mér þar með á óvart því ég hef vælt landshornanna á milli um hvað það verður nú mikið æði þegar ég get loksins búið ein. Al...al...ein. En núna get fengið heimsóknir og tekið á móti fólki með stæl...og vona bara að vinir og vandamenn skelli sér í eina helgarferð eða svo til mín og haldi mér frá því að verða paranoid í einsemdinni:)
Annars hefur þetta allt gengið mjög vel... Bryndísin mín er búin að vera engill að hýsa mig og hugga eftir erfiða daga, fæða mig,sjá mér fyrir bókmenntum, kynna mig fyrir vinum sínum og vera bara allt í allt eins frábær eins og hún er...

7.1.05

Afhending íbúðar

púff púff... fékk íbúðina mína afhenta í dag og ég pabbi og Arnar tókum strax til verka... og ég var eins og barbiedúkka með verkfærin. Ég hef nú alveg tekið til hendinni... en þegar þessir tveir menn mættu á svæðið þá var þetta orðlaust mission. Annar tók upp Lethermanninn og fór að fjarlægja nagla og hinn fór að leita að rakaskemmdum með innbyggðum radar. Ég stóð með eitthvað verkfæri sem ég vissi ekki hvað hét og skildi þar af leiðandi ekki orðlausu skipanirar. Svo fór þetta að taka á sig mynd allt saman og þunglyndi mitt yfir rakaskemmdum og slæmu gólfefni breyttust yfir í spenning með útkomuna. Þegar ég skoðaði íbúðina fyrst sá ég alveg hversu slæmt ástandið var. Þegar svo var búið að fjarlægja teppi og skafa í burtu málningu þá fór ástandið versnandi.... en svo bættist það aftur þegar báðir verkamennirnir mínir tjáðu mér hverskyns kjarakaup ég hafði gert (knew it... innbygður radar) og að með smá vinnu gætum við snúið þessu uppí kósívesturbæjaríbúð með glans:)

Helgin fer í þetta... að gera upp íbúðina mína og skila henni til leigjandans og að pakka niður. Tíminn er af skornum skammti þannig að ég mun ekki ná að kveðja nánustu fjölskyldu eins og ég hefði kosið. Svo flýg ég út á mánudag með Bryndísi (sem er svo góð að nenna að hýsa mig fyrstu dagana), Sólrúnu og Óskari. Byrja að vinna næsta dag og leita mér að íbúð. Það lítur allt út fyrir að ég fari í flatshare og verður spennandi að sjá hvers kyns karakterum ég lendi á....mun reyna að standa mig í frásögnum næstu mánuði

TaTa for now...