Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

30.11.05

Thanks Giving

Þá er þórhallur kominn og farin í fríðu föruneyti þriggja samstarfskvenna. Þriggja mjög skandínavískra og þögulla kvenna. Það tók þær 4 kvöld af mat og drykk til að halda uppi fullum samræðum... en nú er ég að vera nastý... þær voru yndislegar og ég fékk bara að tala meira í staðin. Einnig hitti ég færaska yfirmanninn sem getur borðað hvern sem er undir borðið.

Við fórum í 2 Sushi veislur, borðuðum ítalskt í Northend, tókum Miriam með og enduðum svo í tapas á Tapeo á Newbury. Þórhallur varð ástfanginn af heilsudýnunni minni og tók aktívt demontration til að sanna að hægt væri að geta börn í Tempur rúmi. Ég leit undan en apparently þá sökkva hnén aðeins lengra niður. Á fimmtudeginum var næstum því allt lokað í bænum vegna Thanks Giving og fórum við í langan langan göngutúr til Cambridge í skítakulda að skoða MIT og Harvard.

Eftir það hélt Þórhallur heim á leið, búinn að vera spenntur allan daginn yfir að fá að prófa löglegt svefnlyf í fluginu og ég hélt yfir í til Miriam þar sem við íslendingarnir og Graham vinur Miriam fögnuðum Thanks Givin, Kalkúnn, trönuberjasósa, gravy og allt. Strákarnir sátu svo og horfðu á amerískan fótbolta á meðan við stelpurnar vesenuðumst í eldhúsinu. Heppnaðist allt einstaklega vel!

Föstudagurinn var annar í Thanks Giving og ég fór með Rebekku í leftovers hjá Ernu og Hjalta í Cambrigde. Við tókum sama göngutúrinn og deginum áður, í sama skítakuldanum. Kíktum svo aðeins út á lífið umkringd Harvardstrákum og MIT stelpum.

Á laugardeginum fór ég svo til Providence... já Providence, þaðan sem melankólíska, krullhærða læknakonan kemur. Þar fékk ég mér göt í eyrun. Jújú.... þá er ég komin með neglurnar og pradatöskuna og eyrun... sílíkonbrjóstin nálgast óðfluga!

Á sunnudeginum tókst mér svo að gera næstum því ekkert annað en að lesa og hugsa og slappa af.... ég er ennþá þreytt eftir allt þetta frí!

22.11.05

Fake Fendis

Á laugardaginn risum við Steini, Kiddi og Jón úr rekkju klukkan 6:30 til að halda af stað í dagsreisu til NY. Jón Árni (bossinn minn) hafði planað að fara með okkur á Canal Street í China Town þar sem eftirlíkingar af merkjavörum seljast eins og heitar lummur.

Ég var ekki spennt þar sem ég er engin merkjamanneskja í mér. Það kom Jóni í uppnám og í heila viku reyndi hann að sannfæra mig um að draumur allra kvenna væri að ganga um með Louis Vutton töskur, með Dolce&Gabbana veski í ekta leðurhönskum með kanínufóðri og Prada skóm. Ég á móti reyndi að sannfæra hann um að þessi lífsspeki væri heldur lost on me og að munurinn lægi í því að hans kvk markhópur byggi á annarri plánetu far far away frá minni.

Alla vikuna mjatlaði svo með mér þankagangurinn um konur, merkjavörur og mig. Var ég þröngsýn að telja konur sem meta merkjavörur einfaldar sálir? Var ég sek um þröngsýni og fordóma í garð kynsystra minna? Mér varð þá hugsað til Moggastjörnuspárinnar minnar sem sagði að ég ætti að prófa að breyta út af vananum þetta árið...

Þegar við svo komum á Canal Street var það ekki spurning um hvort heldur hvenær ég myndi kaupa mér Fake Fenditösku. Þannig að þegar að lítil kínversk kona veifaði polaroidmyndum af Luis Vutton framan í andlitið á mér sagði ég já án þess að hugsa. Hún benti okkur þá að fylgja öðrum kínverja sem gekk ávallt 10 skrefum á undan okkur, leit svo flóttalega í allar áttir áður en hann opnaði hurðina ofan í litla kjallaraholu. Hann leiddi okkur svo í gegnum heila saumastofu fulla af kínverskum saumakonum inní bakherbergi þar sem .... tadaradara... var heilt herbergi fullt af fake-merkjavörum... eða alvöru merkjavörum sem týnast í verksmjiðunum??!!?? Ég er núna stoltur eigandi Pradatösku og Pradaveskis og Dolce&Gabbana beltis. Setti svo punktinn yfir i-ið með því að kaupa mér 'konu' ilmvatn! Þeir sem sáu manucure- og pedicure-ið mitt í sumar telja þetta kannski lógíska þróun. Ef svo fer sem horfir verð ég komin með sílíkon í brjóstin innan árs.

Eftir þetta ekta New York ævintýri skoðuðum við Ground Zero -sem er ekkert nema risastór hola- og keyrðum niður Broadway á leiðinni út úr bænum. Hélt litlujól uppí rúmi á sunnudagsmorgninum með poka fullan af gjöfum handa mér...bara mér.

Stóri bróðir kom svo snemma í bæinn í gær og urðu miklir fagnaðarfundir í úthverfi Boston og mikið Sushi borðað. Fór svo með honum, þremur samstarfskonum hans og Miriam í ítalska hverfið í kvöld þar sem við snæddum stóra skammta, þau töluðu dönsku og ég skildi! Svo gott að hitta fjölskyldu:)

18.11.05

"Hvað ég borðaði í dag" -blogg

Þá er litla holan mín farin að taka á sig mynd, minimaliski stíllinn ennþá ráðandi þó, en á undanhaldi. Hingað inn er ég komin með stærðarinnar stórt (afskaplega stórt) rúm, þriggjasæta sófa, egglaga gímald af stól að vera og svo nýjasta fjölskyldumeðliminn - sófaborðið - sem er ástæðan fyrir því að ég er að verða blönk þrátt fyrir að við séum rétt skriðin yfir í seinni helming nóvembermánaðar. En ég varð ástfangin af þessu borði/kistli/geymslu fyrir 12 vínflöskur, prjónadót og fleira, sem opnast á alla vegu, inniheldur mörg falin hólf og er allt í allt afskaplega patent lausn fyrir 30 fermetra íbúð! Heyrið mig réttlæta innkaup mín... og hljóma eins og Vala Matt í leiðinni!

Þar sem ég er nú komin með borðið, þá get ég farið að nota sófann. Jamm, ég hef ekki notað sófann síðan hann kom af þessari ástæðu. Ég er svolítill Rainman að þessu leiti. Get ekki gengið í nýjum fötum fyrr en þau eru orðin vikugömul inní skáp hjá mér, get ekki notað sófa fyrr en ég er komin með rétt sófaborðssystkyni fyrir það og get ekki keypt mér nýja tölvu fyrr en ég er komin með borð til að leggja hana niður á. Einhverskonar heilkenni. Held að þetta séu áhrif viðsnúna litningssins sem erfist í fjölskyldunni.

Jamm, fartölvan mín vaknaði á fjögurra ára afmælisdaginn sinn og ákvað að hún gæti ekki meira. Bara dó sí svona. Mín fyrsta hugsun var samsæriskenning gagnvart Nýherja sem snerist um 4 ára klukku í móðurborðinu. En satt best að segja þá varð ég hvorki hissa, frústreruð eða reið því greyið hafði staðið sig með sóma allan þennan tíma. Fyrir utan það var hún svo góð að vakna einu sinni til lífsins -last farewell- sem nægði mér til að ná öllum mikilvægum gögnum út úr henni áður en móðurborðið hélt áleiðis yfir móðuna miklu. Svo að ég gaf henni bara klapp á lokið og sagði bless. Var tölvulaus í mánuð þangað til ég sannfærði þennan prýðisyfirmann minnum að það væri fyrirtækinu til góða að lána mér einhvern dall. Þessi dallur er ágætur nema hann á í erfiðleikum með f-in.

Hvað fleira er nýtt... hmmm... það urðu forstjóraskipti í fyrirtækinu, allt gott um það að segja. Í kjölfarið sendum við fólk í heimsókn til Bretlands (þar sem gamli forstjórinn var til húsa) og fólk þaðan kom hingað. Svo að í síðustu viku hitti ég á ný gamla yfirmann minn frá Londonarskrifstofunni og gamla yfirmanninn frá Íslandi. Ákvað að taka ekki trip down memory lane með þeim og lét Miriam um að djamma með túristunum. Hún tók íslenskt fyllerí með bresku ívafi og lá á skrifstofugólfinu daginn eftir og emjaði. Ekki gott combó.

Íslendingafélagið hefur náð að blása nokkrum nýjum straumum inní líf mitt hér. Frekar óíslenskum reyndar, því í gegnum það hef ég kynnst Rebekku. Spænsk-amerísk stelpa sem bjó í eitt ár á Íslandi og er almannatengslamanneskja dauðans. Veit allt um allt sem er að gerast í borginni og hvaða strætó er best að taka til að komast þangað.

Lék í gær aðstoðarmanneskju hennar við afmælismúnderingar innkaup og stóð mig eins og hetja. Fann á hana magnaðan kjól og topp og nærföt og meikup. Við vorum svo búnar eftir þetta að hún endaði á því að sofa á sófanum hjá mér... því ég er svo central;)

Svo í kvöld gekk ég útaf skrifstofunni og beint í fangið á Obbu... sem ég var að vinna með á Talsambandinu/upplýsingar um erlend númer hér forðum daga. Hún var eins og amma mín þar á þeim tíma. Ég tók ekki einu sinni eftir henni, en hún kannaðist víst við svipinn og hljóp á eftir mér. Hvað heimurinn er lítill!

Jæja, þetta er nú búið að vera soldið "Hvað ég borðaði í dag"-blogg. Gerist af og til. Og svo að ég segi nú frá því hvað ég mun "borða á næstunni" að þá fer ég í dagsferð til New York á laugardaginn og svo mun Þórhallur bróðir heimsækja mig á mánudag frammá fimmtudag sem er einmitt hið rómaða "Thanks Giving". Kannski koma meiri spennandi sögur út úr því:)

5.11.05

Halloween

Um síðustu helgi fékk ég svo enn eina al-ameríska hefðina - Hrekkjarvökuna - eins og heróínsprautu beint í slagæð. Vinnufélagi okkar Brian (sem braut upp einokunina og flutti inná íslendingaskrifstofuna um daginn) bauð okkur öllum til sín í Halloween partý.

Ég og Miriam vorum fljótar að ákveða að við ætluðum að klæða okkur upp sem Dominatrixes; korselett, svipur leður og læti. Mér tókst að finna ódýrt, mjög svo þröngt gervileðurpils í siðgæðislausri Blacktino búð (fyrir alla sem sáu Domino). Svipan og netasokkabuxurnar fylgdu auðveldlega í kjölfarið, en þegar kom að því að finna sér svart korselett var ekki til neitt nema bleikt í minni stærð, sem gjörsamlega eyðilagði sadistafílínginn í þessu öllu saman. Ég var hvort sem er aðeins of happý og ljóshærð til að vera sannfærandi sadistakvenndi.

Þar sem ég skoppaði um íbúðina hennar Miram í netasokkabuxum, nærbuxum, korseletti og háhæluðum hnéháum leðurstígvélum ákvað ég að breyta hlutverki mínu í "The happy whore with a twist(svipan)". Hálftíma seinna hittust hamingjusama hóran(Ég), ofvirka dominatrixið(Miram), Faróinn (Kiddi) og svartklæddur maður með þórshamar (Steini... veit ekki ennþá hvað hann átti að vera) og héldu saman í sukk og svínarí í úthverfi Boston. Við stóðum svosem ekkert útúr fjöldanum þar sem allt var morandi í fullorðnum bíflugum, álfum, Straktrack-karakterum, jónum og Súperman fígúrum í almenningssamgangakerfi Boston.

Í partýinu hjá Brian, (gay og giftur, sem er löglegt í Massachussets.... elska MA) var margt um hávaxna karlmenn í flugfreyju- og "naughty-nurse" búningum. Einnig var þar að finna eitt stykki E-pillu, "dirty-cop" (sem ég ætla að vera á næsta ári ef ég verð hérna þá), "bearded lady" (kallaði sig bi, gift með krakka en reyndi non stop við dominatrixið Miriam allt kvöldið), death-row fanga og fullt af native djókum sem voru gersamlega lost on me.

Á meðan félagar mínir tóku þátt í alls kyns saurlifnaði lenti ég á pólitísku tjatti við alla evrópubúana og evrópubúandi ameríkanana í partýinu, sem eru þeir einu sem ég hef getað talað skýrt og skorinort um pólitík og stríðrekstur í þessu landi.

Undir lok kvöldsins hafði ég svo breyst úr the "Happy whore" yfir í the "Cheap whore" þar sem netasokkabuxurnar mínar höfðu á einhvern dularfullan hátt fyllst af lykkjuföllum. Ég gat ekki lengur gengið í leðurstígvélunum og hefði beðið Faróinn um að halda á mér heim ef það hefði ekki verið fyrir það að ég var sú eina í grúppunni sem gat haldið höfði eftir ævintýri næturinnar.

Vaknaði svo klukkan 10 á sunnudagsmorgni, eldhress og sársvöng og dreif mig beinustu leið í matarleit í kringluna þar sem ískápurinn minn er yfirleitt tómari en heilinn á Ungfrú Íslandi. Leið eins og Gúlliver í Puttalandi innan um allar litlu prinsessurnar, maríubjöllurnar og garðálfana sem voru að sníkja nammi í verslununum og veitingastöðum. Verkjaði í eggjastokkana eftir það.