Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

24.2.11

Nokkrir hlutir sem eru öðruvísi hérna ...

Hér eru flækingshundar út um allt, töltandi um göturnar. Ég hef alltaf haldið að villihundar hlytu að vera hættulegar skepnum, því það þyrfti að þjálfa hund til að vera vinur mannsins annars fylgdu þeir úlfaeðli. Veit ekki hvaðan ég hef þetta, en svo virðist ekki vera. Þetta eru vænstu grey sem vappa einir um göturnar, allar stærðir og gerðir. Borða væntanlega rusl og drekka úr pollum og brunnum býst ég við. Og enginn pælir í þessu fyrr en þeim er bent á þetta af evrópskum túristum.

Hér sér maður enga ketti.Einu kettirnir sem ég hef séð eru flækingskettirnir í grasagarðinum og Recoleta kirkjugarðinum

Hér má maður ekki alltaf henda klósettpappírnum í klósettið. ÓNEI!!! hugsaði ég fyrst og mundi eftir sögu af einhverjum skiptinemum í háskóla heima sem þurfti að tala við útaf því þau hentu alltaf klósettpappírnum í ruslið.Þótti viðkæmt mál.Og við hlógum að grey útlendingunum sem kunnu ekki að fara á klósettið. Nú hlæ ég ekki lengur heldur hendi helvítis pappírnum í ruslið þegar það á við. Það á við í byggingum með gamlar pípulagnir sem stíflast auðveldlega. Í Mendoza var þetta á öllum stöðum,gömlum sem nýjum,svo að þetta getur að öllum líkindum líka tengst vatnsnotkun.

Hér drekka fáir kaffi og almennt er kaffi vont, nema á einstaka kaffihúsum. Drekka bara sitt Mate sem er auðvitað miklu hollara.

Hér borðar fólk kvölmat milli tíu og tólf á kvöldin. Og fer að sofa seint að nóttu, en vaknar samt snemma og tekur sér ekki siestu. Skil það ekki.

Hérna leggjast karlmenn líka undir hnífinn og ég hef séð mann með fyllingu í kynnum og vorum og ég vona að það hafi ekki verið meira.

Hér þarf að gera dauðaleit að kókosmjólk og kakói.Virðist bara varla vera flutt inn.

Það eru fleiri svertingjar heima á Íslandi en í Buenos Aires. Einvher sagði að þessi minnihluti hafi verið til en hann var allur sendur í fremstu línu á vígstöðvarnar í nokkrum stríðum og þurrkaðist því út. Sel það ekki dýrara en ég keypti það og bið um leiðréttingar.

Skiptimynt er af skornum skammti þannig að maður má alls ekki gefa hana betlurum. Annars kemst maður ekki í strætó. Þá er bara betra að vera bara grand við betlarann og gefonum í seðlum (60 kr seðilinn til dæmis).

Óstaðfestar heimildir herma að það sé mun fleira af konum en körlum í þessari borg. Sem ýtir enn frekar undir machoismann og kærustufjöldann per mann.

17.2.11

Subte

Það kostar cirka 35 krónur í neðjanjarðarlestina í Buenos Aires, niðurgreitt af borginni auðvitað. Á meðan hækkar kjötverðið svo mikið að hinn almenni Argentínubúi hefur þurft að breyta mataræðinu. Hann getur þó alltaf treyst því að komast til vinnu fyrir slikk.

Ég nota venjulega ekki neðanjarðarlestina. Ekki útaf því að hún er skítugt, sem hún er. Heldur ekki út af því að hún er hættuleg,sem hún er ekki. Bara mikið um vasaþjófnað þar eins og í flestum mannmörgum neðanjarðarlestum. Mér finnst bara best að ganga, þótt það taki miklu lengri tíma. Átta mig betur á hvernig landið liggur og borgin virkar með því að ganga alla leið frá A til B.

Það fylgja því auðvitað aðrar hættur að ganga. Síðan ég kom hingað hefur það einu sinni gerst að ég hef gengið inn í eitthvað vafasamt. Segjum einu og hálfu sinni. Og það er ekki nokkur leið að ég hefði getað vitað það fyrirfram ... held ég. Var að ganga eftir götu fullri af ágætis hótelum og veitingastöðum þegar hún allt í einu breyttist í eitthvað lestarslys þar sem allir sátu á dýnum á götunni með bjór og sígó, í rusli og brotnum rúðum. Þýðir ekkert að panikka, bara best að gefa í botn og láta eins og maður sér læknir án landamæra á leiðinni í vitjun. Ég þurrkaði samt af mér svitann þegar gatan varð gæfulegri á ný.

Í kvöld þurfti ég að fara of langt til að geta gengið það á góðum tíma svo að ég tók neðanjarðarlestina á háannatíma. Ríghélt um töskuna mína, enda búin að heyra ansi margar þjófnaðarsögur úr subte-inu á einni viku. Fylgdist svo grannt með og beið eftir því að verða vitni að vasnaþjófnaði í kringum mig eins og ég væri í dýragarðinum að bíða eftir því að flóðhesturinn kæmi upp til að anda. Hafði þrjá drengi sterklega grunaða enda fannst þeir horfa grunsamlega mikið í kringum sig ... og á mig. Skammaðist mín svo innilega þegar allir þrír gáfu betlara ölmusu sem ég sjálf þóttist ekki skilja. Kjáni ...

Á leiðinni heim kom annar betlari inn í lestina og um leið og hann kynnti sig og fór að blaðra um peninga leit ég niður á gólfið. En ekki lengi, því þessi sýndi listir sínar og jugglaði fimm boltum á miðju lestargólfinu, með lítið sem ekkert pláss.Hann var svo flottur að mig langaði að taka mynd á símann minn, en fattaði svo að þetta var ekki staðurinn til að auglýsa innihald hliðartöskunnar. Ég naut stundarinnar í staðinn. Hann var svo flottur að allur vagninn klappaði þegar hann kláraði og ég borgaði fyrir mig.

15.2.11

Valentínusardagur á Entre Ríos

Í skólanum var ég dregin upp á töflu með Jonna, 24 ára hollenskum strák. Við áttum að leika par sem var nýbúið að rífast. Þetta var liður í því að auka tungulipurð okkar á spænsku. Mér tókst að rústa Jonna og því sem eftir var af sambandi okkar með því að ásaka hann um að hafa gert eitthvað á klósettinu með annarri stelpu. Ætlaði að segja í baðkarinu. Sagðist hafa lesið tölvupóstinn hans og komist að því þannig (?). Það væru ekki til einkamál milli para. Hann stamaði bara og gat ekki sagt neitt og svo tókst honum með hjálp hinna í bekknum að dömpa mér. Þá kallaði ég hann skepnu (bestia!) fyrir að segja mér upp á sjálfan Valentínusardaginn ...

Svo dró ég skepnuskottið mitt heim og sólundaði deginum í dekur á dekur ofan. Carina, snyrtifræðingur og tangósöngvari , sat hér á Entre Ríos í sjö klukkutíma snyrti fætur, lakkaði neglur, baðaði andlit og söng fyrir  okkur Birtu, Helen og Anette.Við drukkum mate og kaffi og átum facturas og ofdekruðum okkur af sykri. Letin var svo mikil og sjálfsaginn svo lítill að Beelzebub hefði verið stoltur af stelpunum sínum.

Og þegar kvöldaði dröslaði ég mér í lopapeysu (útaf ofvirkri loftkælingu) og  druslubuxur (allt annað skítugt eftir Mendoza)og fór á veitingastaðinn á horninu, Ebro. Þar var fullt af pörum að borða. Þau virtust ekkert að deyja úr rómantík. Playlistinn spilaði slagara á borð við lady in red og maður gekk um og seldi rósir. Rétt missti af honum til að kaupa eina handa Birtunni...

Þetta er vaxandi hefð í Argentínu eins og á Íslandi. Ábyggilega á sama óþægilega stiginu þar sem allir eru óöruggir með hvort þeir þurfi að gera eitthvað og gera það þá að minnsta kosti til að fyrirbyggja einhver vandræði.


Svona var stemmningin í eldhúsinu í gær:



13.2.11

Ferðin til Mendoza

Ferðalagið byrjaði með 13 klukkutíma fyrsta klassa rútuferð með Andesmar. Það var boðið upp á heitan mat, vín og kósíheit og til að koma öllum í gott skap byrjaði rútuliðinn okkar á því að því að rífa okkur öll með sér í lítinn leik. Við keyrðum því út úr Buenos Aires og inn í sólarlagið spilandi Bingó upp á rauðvínsflösku ...


Á rútustöðinni í Mendoza tóku félagarnir frá ferðafélaginu Cordon del Plata á móti mér og skutluðu mér í skoðunarferð um vínhéruðin. Við vorum sex saman í heilan dag, smökkuðum vín, borðuðum asado (grillkjöt allskonar) og deildum sögum; breskar mæðgur, argentínskar vinkonur og ég ... og Guiuseppi, ítalskur ellilíferisþegi sem var einn á ferð, talaði enga ensku en skildi smá spænsku. Þar sem við vorum tvö stök, hélt hann mér á snakki um Mendoza á ítölsku meðan við keyrðum milli staða og sýndi mér myndir af öllu sem hann hafði gert síðustu vikuna.

Þar sem ég skrollaði í gegnum dagsferðirnar á myndavélinni hans tók ég eftir öllum sjálfsmyndunum. Andlitið á Guiuseppe í Andesfjöllunum, hliðarsvipurinn á Guiuseppe hjá Punta del Inca, ennið á Guiuseppe hjá Kriststyttunni og ég fylltist örlítilli örvæntingu um að hann væri bara ég eftir 40 ár ... einn að þvælast að taka sjálfsmyndir til að staðfesta tilvist sína á ferðalagi ...

Þegar ég kom svo á hostelið mitt sá ég mér til mikillar furðu að herbergið mitt var risastórt með fjórum rúmum, bara fyrir mig! Hostelið var mjög rólegt, ekkert nema fjölskyldur og pör. Þegar líða tók á kvöldið herjaði á mig nokkur einmannaleiki þar sem ég horfði yfir umbúinn rúmin fyrir ... ENGAN... og hugsaði tilbaka til sólbrennda nefsins hans Guiseppe í Andesfjöllunum. Þegar ég var alveg að fara að vorkenna sjálfri mér fyrir að vera einhleyp og barnlaus í útlöndum með engan til að halda utan um mig hugsaði ég fokkit ... þetta er ekki ég ... þetta eru bara þessi þrjú tómu rúm ... svo ég ákvað að skipta um hostel og finna eitthvað líf ...

(Ég vil taka það fram að einmannaleiki er heilbrigð tilfinning sem poppar upp hvenær og hvar sem er eins og hamingja og kvef. Það er bara þegar maður er hræddur við þessa tilfinningu eða lætur hana stjórnar lífi sínu sem hún verður vandamál.)

... og þannig endaði ég á Hostel Independencia:








Nú hef ég litla sem enga hostelreynslu og fyrsta kvöldið á Independencia flaug það í gegnum hausinn á mér að hugsanlega hefði ég gert mistök.

Þegar ég kom þangað á mánudagskvöldi var útigarðurinn pakkaður af ungu fólki með líters bjórflöskur að grilla kjöt. Allir strákarnir gengu um berir að ofan. Tónlistin var há. Ég fékk herbergi við hliðina á afgreiðslunni á fyrstu hæð og akkúrat þegar ég var að fara að sofa klukkan tólf tók húsvöðurinn fram hátalarann við afgreiðsluborðið og blastaði í botn í kapp við tónlistina í bakgarðinum og hláturrokurnar úr stofunni. Útá götu voru þvílík læti, allir að koma og fara mjög fullir. Ég sofnaði í sex manna herbergi þrátt fyrir allan umganginn og þrjár tegundir af óhljóðum úr öllum áttum. Komst að því síðar að þetta átti sér eðlilega skýringu. Aðalafgreiðslustelpan var að halda upp á 21 árs afmælið sitt.

Daginn eftir var allt tandurhreint og fallegt og rólegt og ég hitti vistmenn í eðlilegu ástandi. Þarna var fólk á öllum aldri; Króatískir klettaklifrarar, göngugarpar sem höfðu orðið veikir á leiðinni upp á Acongagua (hæsta tind Suður-Ameríku) og þurft að snúa við, frakkar sem drukku meira en þeir sváfu en voru alltaf franskir og sjúskað ferskir, hálf fullorðið fólk að ferðast um heiminn áður en það byrjar í háskóla, fyrir eigin pening eða fyrir pabbbapening ...

... og þarna fann ég hálfsextugan Bill Clinton look alike frá Bandaríkjunum með gulleyrnalokk í öðru eyra. Það fyrsta sem hann sagði við mig var "Þú lítur ekki út eins og hostel týpan", svo kenndi hann mér allt sem hann vissi. Eftir tvo daga var eins og ég hefði átti heima á hostelinu alla ævi. Í skítugum fötum með fitugt hárið, í flip flopps með vatnsflösku í annarri og þvælt kort í hinni ... smá ýkjur ... búin að vera í flip flopps síðan ég kom hingað og ég var bara skítug því ég nennti ekki að skipta um föt því ég fann enga lykt ...

Við Bill smullum saman eins og flís við rass og tvíburðumst á veitingastöðum eftir langar dagsferðir því þótt hann væri að spara með því að gista á hostelum þá kunni hann gott að éta. Og ég kynntist kynstrunum öllu af fólki, flestallir furðufuglar, en yfirleitt bara á góðan hátt.

Og það var svo gott að komast út úr borginni, það var ótrúlegt! Eftir þrjár vikur af bílum og byggingum öskraði litla náttúrubarnið inní mér eftir smá landslagi, smá fixi af náttúru ... og hana fékk ég í Mendoza. Þarna voru vínhéruðin, endalausar vínekrur svo langt sem augað eygði í eyðimerkurlandslaginu ...

þarna voru Andesfjöllin, mögnuð ...


og svo var það borgin, öll út í skurðum til að nýta vatnið úr fjöllunum, þakin trjám sem skyggðu á göturnar og hlífðu íbúum fyrir hitanum ... því í Mendoza verður heitt. Það rignir um fimm daga á ári að meðaltali. Ótrúlegt nokk náði ég tveimur og hálfum af þessum dögum!

Það er óþarfi að telja upp allt sem ég gerði á þessari viku í einhverjum smáatriðum. Til að gera langa sögu stutta heimsótti ég Zuccardi víngarðinn, fór á hestbak í fyrsta skipti í 20 ár, fór í fjallgöngu í Andesfjöllunum, skoðunarferð um fyrrnefnd fjöll, sólbrann á utanverðum kálfunum (hestaferðin) og í hársrótinni og lenti í hagléli í fjöllunum. Ég átti eina bestu viku ævi minnar og eins og sést kynntist ég fólki til að taka myndir af mér þannig að myndamöppurnar mínar eru ekki fullar af ennum og nefum og hliðarsvipum:


... og í rútunni á heimleiðinni kynntist ég Brasilíubúanum Dimitri sem á systkynin Raisu, Lenín og Stalín því að mamma hans fílaði rúsneskar bókmenntir ... ég hef það á tilfinningunni að mamma hans hafi fílað annað og meira en rússneskar bókmennti ...

5.2.11

Kúreki sléttunnar

Í gær var á ég þönum að redda mér öllu sem ég þarf að redda fyrir roadtrippið mitt. Já, ég er farin í viku á vit ævintýranna eins míns liðs:)

Í þrjár vikur hef ég rölt borgina fram og tilbaka, komið mér fyrir og kynnst hinum og þessum, lesið, lært, sólað mig og komist í kynni við kynstrin öll af bakkelsi og ís. Þessa vikuna fylltist ég andlegu eirðarleysi og miklum fótapirringi. Mig langar að sjá þetta land! Mig langar reyndar að sjá allan heiminn ... eitt skref í einu ...

Þar sem ég á svo einstaklega hjálplega að hérna þá er ég bara komin með eitt heljarinnar túristaplan.Lítur út fyrir að ég fari á gaucho farm, á hestbak um sléttuna, læri á lasso og fleira fleira ... skeina mér með skeiljum kannski, hver veit...

Ferðinni er heitið til Mendoza og ég ætla að fara með rútunni. Þrettán tíma rútuferð takk fyrir! Ég myndi kvíða fyrir þessu ef það væri ekki fyrir það að argentínskar rútur eru á heimsmælikvarða, með þremur klössum og þjónustu um borð. Ég ákvað að vera grand á því og splæsa í dýrasta klassan þar sem ég fæ rúm, kodda og teppi og kvöldmáltíð. Auk þess verð ég á annarri hæð, þannig að ef það er útsýni, þá sé ég það:) Fyrir fyrsta klassa, 13 klukkutíma ferð borga ég ... dadaradara ... 12 þúsund kall!!! Vona að þetta sé eins spennandi og það hljómar.

Hasta luego ...

Öreigarnir

Hver einasta stórborg á sína fátæku, heimilislausu og ólánsömu. Hér er slatti af þeim. Ég veit ekki hvort ástandið á götunni er verra en það var fyrir 2001 þegar Argentína gekk í gegnum sitt síðasta hrun. Argentína hefur reyndar ekki gengið í gegnum bara þetta eina, held þau telji þrjú. Það er því stórt hlutfall fólks em hefur misst aleiguna, vinnuna og ævisparnaðinn þrisvar, ímyndið ykkur það!

Einn af þeim býr hérna í kommúnunni á Entre Ríos. Louis, yndislegur maður sem barðist meðal annars í Falklandseyjarstríðinu,missti allt 2001 og býr núna við mjög knappan kost meðan hann vinnur að því hörðum höndum að ná sér aftur í sæmandi lífskilyrði fyrir mann á hans aldri. Við ræðum mikið saman um hverfulleika lífsins. Það er, hann talar hægt og rólega og kennir mér spænsku í leiðinni og ég reyni á barnamáli að útskýra hverfulleikan frá minni hlið.

Skiljanlega eftir allt sem á undan er gengið í landinu er tiltrú á pólitíkusa í lágmarki. Pólitíkusa og banka. Spænskukennarinn minn kemst ekki í gegnum einn tíma án þess að taka fram að ekki sé til "neinn, ekki einn" heiðarlegur pólitíkus.

Gott dæmi um óheiðarlegan pólitíkus var kona hverrar helsta baráttumál var að hreinsa upp höfnina hjá La Boca fátækrarhverfinu sem er ill lyktandi drullupollur. Þegar heitt er í veðri berst fnykurinn yfir allt hverfið. Hún fékk peninginn og í staðinn fyrir að hreinsa höfnina keypti hún sér lúxusíbúð í New York. Mér skilst að tekist hafi að dæma hana fyrir spillingu.

En já, það er nóg um heimilislausa. Þeir sofa á götunum,á bekkjunum, upp við byggingarnar og í stórum gluggakistum opinberra bygginga, umvafnir teppum og dýnum og hundum. Á kvöldin róta þeir svo í rulsinu sem fyrrirtæki og veitingahús skilja eftir fyrir utan hjá sér.Fyrst hélt ég að þeir væru að leita sér að mat, en svo var ég upplýst um það að þeir sjá í rauninni um endurvinnsluna í borginni. Þeir fara gegnum ruslið og sortera út það sem er endurvinnsluhæfti eins og til dæmis pappa. Þeir eru svo með stór a mannhæðarhápoka sem þeir festa á kerrur og fylla.Svo ýta þeir þessu á undan sér í umferðinni og inní hverfin og upp að næstu central stöð, sem aðrir í sömu stöðu hafa komið upp, þar sem bíður vörubíll sem tekur þetta svo áfram. Fyrir þetta fá þeir eitthvað smoterí.

Ég missti hökuna niðrá gagnstéttarrendurnar og fékk kökk í hálsinn um daginn þegar framhjá fór maður í mikilli umferð, ýtandi á undan sér einni slíkri risa kerru. Ber að ofan að svitna í sólinni og efst upp á pappírsstaflanum í kerrunni sat lítil tveggja ára dúlla, með skítarendur í framan, í þvældum kjól, saug snuðið sitt og horfði allan tímann á akkerið sitt, pabbann. Og mér varð hugsað til tvíburfrænka minna á svipuðum aldri.

Maður verður að þakka fyrir hvað maður er heppinn!

Fyrir framan hæstarétt voru ungar konur með börnin sín innan um ruslasafnið:

Þessi lá sofandi undir skugganum á tré á umferðareyju:

Þessi hafði búið sér til fleti á stoppistöð:



Rauðu tangóskórnir og Milonga

Mér var sent blogg sem fjallaði um að á löngum ferðalögum er erfitt að sanka að sér minnigabrotum í materíalísku formi til að taka með sér heim. Farangurinn er af skornum skammti og fyrir hvern hlut sem bætist við þarf einhver annar að fara.

Það er eins hér með mig. Ég tók með mér fáa hluti og hluti sem ég mun koma til með að nota út allt ferðalagið. Vonandi geta hent þeim eftir það. Ég mun ekki geta tekið nein fatainnkaup því ég a) hef ekki pláss fyrir það og b) ef ég kaupi mér eitthvað eins og föt mun ég lítið getað notað þau heima. Þannig að ég mun ekki koma heim fullhlaðin gjöfum handa vinum og ættingjum, því á endanum hef ég 20 kíló og mér skilst að það kosti formúgu að senda hluti heim í kassa.

En,maður verður að koma með einhverja minningagripi með sér heim. Hér fyrir neðan er minn. Tangóskór sem ég fékk sérhannaða fyrir mig því tangókennarinn hannar og selur eigin línu af tangó (raun spari) skóm. Fékk að velja útlitið, hælinn og lét breyta þeim í lokaða skó í stað opinna.Og þegar rauðu fiskroðstangóskórnir mínir loksins komu og smellpössuðu upp á millimeter, þá var ég komin með minningu til að taka með mér heim:



Hér er svo linkur á skóna hennar Helenar ... veit að einhverjir af casual skónum fást í Kraum:

http://www.facebook.com/pages/La-Vikinga-Shoes/39513879494

Þessir voru ekki komnir um daginn þegar ég fór á mína fyrstu Milongu. Ég hafði enga löngun til að reyna að nota þessi örfáu spor sem ég kunni og var áhugasömust um að sjá hvernig Milonga gengur fyrir sig. Í þetta sinn var þetta einnig afmæli danskennara, þannig að það voru þarna einhver nöfn í geiranum virtist vera. Engin einföld spor í gangi, allir í sýningargír.

Og það var yndislegt að sitja og fylgjast með hvernig pörin liðu um salinn... og ef maður hlustaði vel heyrðist skrjáfið þegar skórnir struku gólfið yfir tónlistina.

Ég verð samt að segja að eftir að hafa fylgst með dönsurunum og þá sérstaklega eldri dömunum, tók ég eftir að þær voru óeðlilega strekktar í framan og allar með fylltar varir. Einstaka hárlína var komin afar langt upp. Mér finnst þetta svo scary look að ég vona að konur fari að taka sönsum og líta aðeins náttúrulegri út því hliðarsvipurinn sem þær fá er eins og neanderdalsmaður sem getur ekki lokað munninum.

Eldumst með reisn.

1.2.11

Fyrsti hlaupatúrinn

Fyrsti hlaupatúrinn búinn í nýrri borg. Ég er að gæla við þá hugmynd að gera þá ekki fleiri, en það kallast víst að gefast upp of snemma. Gef þessu tvö skipti í viðbót.

Þetta virðist ekki vera góð borg til hlaupa og sérstaklega ekki svæðið sem ég bý á. Það eru til hlaupasvæði, mjög stórir garðar nær ánni (Palermoskógar), en það meikar ekkert sens að taka neðanjarðarlestina niðureftir, labba síðan nokkurn spotta til að byrja svo að hlaupa. Það gæti orðið sparitúr um helgar, en hlaup fyrir mér eiga að hefjast þegar maður labbar út um hurðina.

Svo að ég labbaði út um hurðina klukkan átta í kvöld og röltií spandexinu með mannþrönginni upp að næstu ljósum, skokkaði svo niður Belgrano og þurfti að stoppa á rauðu eftir cirka hverja götublokk, líklegast á 300 metra fresti. Þurfti að passa mig á holunum og reyna að sirka út lausu götuhellurnar sem frussa upp vatni þegar maður er svo óheppinn að stíga á þær.

Þegar ég var komin niður á breiðustu götu heims bættist mengunin við 30 stiga hitann. Hljóp upp Avenido de Mayo að Congreso þar sem allir hinir hlaupararnir í hverfinu hlaupa hring eftir hring í kringum minnismerki. Þar þakkaði ég fyrir að porteñoar eru ekki töff hlauparar því ég var orðin hálf lúin. Þeir eru ekki í smart göllum með GPS græjur og vatnsbelti eða sólgleraugu eða tásluskó. Svo skokka þeir smá og labba, en enginn virðist vera að taka þetta alvarlega, ná ákveðnum kílómetrafjölda eða hraða.

Ég náði sem sagt fimm lásí kílómetrum og fékk í hnéð í fyrsta sinn á ævinni... spurning um að fara frekar að æfa tangó?