Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

26.10.05

Jóga Steinunn

Eftir þrjá mánuði af engri hreyfingu - nema göngu til og frá vinnu og á klósettið - vinnusjúkdómnum vöðvabólgu í kjölfar þess (sem nóta bene sendi mig í sjúkrabíl á bráðamótöku vegna óstjórnlegra krampa í hálsi) og svo einn mánuð af stífu skriðsundi heima á Íslandi ... þá komst ég að þeirri niðurstöðu að hingað og ekki lengra, ég yrði að stunda reglulega hreyfingu aðra en að pikka á lyklaborðinu, væla í yfirmanni mínum og hinni mónótónísku hreyfingu hvítvínsglassins til og frá borðinu.

Afsökun mín í allt sumar var að það væri of heitt úti til að fara inná líkamsræktarstöð og púla í loftkælingu á þartilgerðum brettum með sjónvarp fyrir framan sig. Það væri bara tímafrek uppskrift að hausverk! Þegar gott er veður þá á að njóta þess og nýta til útivistar, eins og að sitja undir sólhlíf á veitingastað:)

En nú er komið haust, öll útiborðin komin inn og ég uppgötvaði að ég þyrfti ekkert endilega að púla inná líkamsræktarstöð, þar sem í næstu götu við heimili mitt er eitt besta jóga stúdíó í Boston. Þannig að nú leik ég tré, dúfur og niðurbrotinn hund (down dog), fer í lótus og sólstöður og óma eins og mér sé borgað fyrir það:)

Svitnaði eins og svín í kvöld, náði að krækja höndum og fótum saman í ótrúlegustu stellingum, lék stríðsmann, fann "rótina" mína og allt! Gekk heim endurnærð, í total balance með jógamottuna undir hendinni þegar mér var hugsað til ákveðins óþroskaðs kjána. Greyið, ef hann hefði verið á svæðinu hefði stríðsmaðurinn ég lamið hann oní öll laufin með mottunni minni....heilagur friður og allt það:)

21.10.05

Íslendingafélag í Boston!!!!

Nú hef ég séð mann sem býr í pappakassa og annan mann sem dregur búslóðina sína á eftir sér í innkaupakörfu. Það sem kemur mér á óvart er að þessir útigangsmenn eru ekki skítugir og illa klæddir. Reyndar eru allir betlarar hér mjög hreinir og vel til fara. Og aldrei fullir. Allt annað heldur en í London þar sem útigangsmenn eru fullir og skítugir en ekkert of böggandi.
Ég sendi íslendingafélaginu (sem ég vissi ekki að væri til) hér í borg póst í kvöld og fékk svar 5 mínútum seinna um að það væri bjórkvöld akkúrat í kvöld. Þannig að nú ætla ég að draga Kidda og Steina með mér á íslendingatreffing sem á að byrja klukkan 7. Ég hef það á tilfinningunni að við verðum fyrst til að mæta á svæðið og munum þurfa að bíða til 9 áður en hinir mæti á svæðið. Vitandi hvernig íslendingar eru.

9.10.05

sambönd

Hér í Boston og Bandaríkjunum viðgangast allt aðrar reglur um tilhugalíf og sambönd heldur en ég hef kynnst á ferðalögum mínum heima og að heiman (heimsborgarasnobb). Finnst mér þær svo merkilegar að ég verð að tjá mig aðeins.

Heima á Íslandi ganga málin yfirleitt þannig fyrir sig að strákur hittir stelpu og markast upphaf sambands þeirra í mjööög mörgum tilfellum af líkamlegu samræði. Forleikurinn er bílferð, bíóferð eða djammferð eftir vinnustaða-, skóla-, net- eða engin kynni. Ef fólk fílar hvort annað heldur það uppi miklu sambandi í nokkra mánuði og fer síðan innan hálfs árs að huga að sambúð ef allt gengur vel.

Þá kemur hamingjusamt og erfitt tímabil þar sem aðilarnir eru a) mjög hamingjusamir yfir því að hafa fastan vin til að leika sér við á kvöldin og um helgar en verða b) fyrir örlitlum vonbrigðum með að manneskjan var ekki akkúrat eins og við var búist... þ.e. mannleg. En svekk aside að þá er sambandið komið uppá annað stig, allir stútfullir af skuldbindingu og nýr kafli hefst ... jei!!! Fáum mánuðum seinna kemur svo í ljós hvort að fólk fíli hvort annað nógu mikið til að hugsa sér að eyða næstu 50 árunum saman eða hvort að sambúðin leiddi í ljós hliðar á manneskjunum sem að ekki var búist við í upphafi. Gifting kemur svo bara einhverntíman seinna, fyrir eða eftir börn og fjárhagslegar skuldbindingar.

Hér í Bandaríkjunum er allt ferlið teygt á langinn. Þú hittir stelpu/strák og bíður henni mjög fljótt á deit. Þetta getur gerst hvar og hvenær sem er án nokkurra kynna eða áfengisáhrifa. Það gilda mjög strangar reglur um fyrstu þrjú deitin og hvað má gera á þeim. Feilir þú á spori getur þú misst virðingu hins aðilans án hiks. Eftir þessi þrjú deit að þá er tekin ákvörðun um framhaldið. Hvort þið ætlið að halda áfram að hittast eða ekki. Það þýðir ekki að þið séuð komin í samband. Þegar parið ákveður svo að það sé komið í samband að þá eru einnig skiptar skoðanir um hvað teljist til löglegs framhjáhalds. En það fer í flestum tilfellum eftir siðgæði fólks.

Nú, þetta samband getur varað í fleiri ár án þess að flutt sé inn saman. Algengt er að fólk flytji til sömu borgar til að vera nær elskunni sinni... en því dettur ekki í hug að flytja inn saman. Því það að flytja inn saman virðist samsvara því að giftast og gefa upp allt sitt frelsi! Gifting fylgir svo mjög fljótt á hæla sambúðar og í mörgum tilfellum gerist hún samhliða af trúarlegum ástæðum.

Í vinnunni minni eru dæmi um tvö pör, þar sem annar aðilinn eða báðir fluttu til borgarinnar til að halda sambandinu, en fluttu ekki inn saman og datt það ekki einu sinni í hug.

Mín pæling er þessi. Sögulegar ástæður fyrir íslensku sambandahefðinni mótast auðvitað af stærstum parti af húsnæðisvanda, of háu leiguverði og gömlum klisjum um fjölskylduþróun.
Bandaríska hefðin mótast af einstaklingsfrelsi, trú og fjarlægðum.

Mér finnst að íslendingar mættu taka upp einhverskonar stefnumótahefð. En ég sé ekki hvernig það getur verið sambandinu hollt að forðast sambúð í mörg ár. Því eins og amma mín eitt sinn sagði, að þá kynnist maður ekki manneskju fyrir alvöru fyrr en maður fer að búa með henni.

Og þannig er það í pottinn búið