Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

24.4.05

eitt update til

Þá er komið að mánaðarlegu bloggi mínu:) Hef heyrt að ég sé lélegur bloggari. Ég neita því ekki. Ég sökka:) En hei, batnandi mönnum er best að lifa. Verst að þegar maður bloggar ekki í langan tíma að þá kemur ein stór update færsla á eftir annarri og þegar henni er lokið strýkur maður svitann af enninu yfir að rifja upp alla atburði síðastliðins mánaðar og finnst maður hafa yfirbloggað sig og aðra. Þannig að hér verður stiklað á stóru.

Anna og Ingunn komu í heimsókn... slæptumst, borðuðum og versluðum og fórum saman á sunnudeginum á Emilíönu Torrini í Bushhall-Shepherd's Bush. Ég æpti yfir mig af ánægju þegar upphitunargaurinn kynnti sig og sagðist heita Mugison!!!! Ég var alveg hreint frá mér af kæti og raulaði með. Hann var stórfyndinn og sagi kúka- og guinnesstónlistartúrasögur milli þess sem hann framkvæmdi snilld sína. Emilíana var alveg jafn fyndin, svaka kjút að vanda og söng eins og engill. Eftirá fórum við svo baksviðs því Ingunn og E. eru gamlar vinkonur og þar fór Mugison að spjalla og ég auðvitað tjáði honum að þetta hefði verið pjúra snilld og þá sagði hann að hann hefði verið með mér í MH. Alveg fór það framhjá mér! Þar með lauk samræðunum:)

Á mánudeginum fóru Ingunn og Anna til E. í Brighton og ég fór pínu ponsu oggulítið lítið út sofin að leita að hóteli á Tottenhamcourt Rd. til að ná í Madda og Ramesh úr vinnunni minni. Tottenhamcourt Rd. er lengri en ég hélt. Maddi var svo í tvær vikur í London og heimtaði pöbba og hamborgara á hverju kvöldi og ég með glöðu geði varð við óskum hans. Mikið rosalega var gott að fá manninn í heimsókn og hafa til halds og trausts. Alveg það sem ég saknaði frá vinnunni heima. Einhvern til að segja leim brandara sem bretar hafa ekki húmor fyrir milli tarna. Seinni vikuna kom svo annar fugl frá Íslandi að vinna með okkur, en það var ofurakureyringurinn Friðrik. Hann var jafn hrifinn af bjór og hamborgurum á the square pig eins og Maddi. Þeir fóru svo á föstudaginn og ég fór beinustu leið heim í bólið.

Ráfaði svo um á Oxford Street í gær og verslaði mér fyrir næsta mánaðarkaup, sumarföt, því ég sem Íslendingur hef ekki haft mikil not fyrir slíkt hingað til. En nú er maður farin að svitna í svörtu bolunum þannig að þetta var allt saman mjög nauðsynlegt:) Fór svo með Bryndísi í dag í Camden Town og við slepptum okkur í glingurkaupum. Ég fékk svo vægt sjokk þegar hún sagði mér að hún færi heim eftir níu daga. Hef haldið því fram statt og stöðugt síðustu tvær vikur að hún fari heim eftir þrjár vikur og gleymt að draga frá. Púff púff, þá verður maður bara helt alene í stórborginni, búhú!

En framundan er þó nóg að gerast. Vigdís er á leiðinni til London og ætlum við á Kings Road rölt næsta laugardag. Svo er planið að kíkja eina helgi á Kötu í Belfast í næsta mánuði. Eyþór litli kemur svo og gistir hjá mér eina nótt á leiðinni til Austurríkis og hugsanlega mun Arnar sjá sér fært að kíkja eina helgi. Ofan á þetta gæti verið að vinnufélagarnir kíki í aðra heimsókn:)

Og .... og og og og... ekki má gleyma því allra allra mikilvægasta, sem er að Þórhalls og Hildarafkvæmi er due á þriðjudaginn næsta... allir munu öðlast spánýja titla í kjölfar fyrsta afkvæmissins í þessari fjölskyldugrein:) Ég verð loksins tante/aunt/föðursystir... Þórhallur er farin að verða stressaður með að þetta gæti dregist og "sett heimsóknarplan og vinnuplan úr skorðum"... sem er annað orð yfir að vera überspenntur yfir því að verða pabbi og geta ekki beðið:) Ég hló mikið. Verst að ég mun ekki sjá barnið fyrr en við skírnina í júlí... sona eretta að allir þurfi að vera flakkandi um í úglöndum.

púst púst... Best að fara í bólið. Planið er að vakna sex og drífa sig í ræktina fyrir vinnu og vinna af sér bjór og hamborgara síðustu tveggja vikna:) Wish me luck!

4.4.05

Af jákvæða Tim og fleiru

Tim er hættur að vera neikvæður alltaf... nema stundum. Ég get ekki lengur kvartað yfir Tim. Hann er meira að segja hættur að blasta lélega tónlist. Kallar mig reyndar tónlistar-Nazi eða tónlistarlögregluna... en svona sex ára bekkjar nafnakall bítur ekki á minni grjóthörðu skel. Ástæðan fyrir því að Tim er hættur að hræða börn með lífþreyttu fasi sínu er bara fyndin og ef ég er afskaplega langdræg, þá er það mér að þakka.
Þannig er nú mál með vexti að yfirmaðurinn minn bað mig um að fara að internetdate-a!! Því að hann átti að gera það en var hræddur um hvernig það myndi líta út að vera með mynd og profile og alles á netinu, harðgiftur maður. Honum greinilega datt ekki í hug að ljúga og leika 18 ára djammpíu frá Essex. Sumum er ekkert ímyndunarafl gefið. Þannig að hann bað mig um það!!! Ég sagði "kemur ekki til greina...been there done that, met the freaks that live there". Þá sagði hann
"gerðuþaðgerðuþaðgerðuþaðsteiunnplískonanmíndrepurmigégeryfirmaðurinnþinn".
Þá sagði ég "ok þá...en sénsinn bensinn að ég setji inn mynd, nafn eða rétta e-mail adressu". Nema hvað... Tim heyrði þetta, veðraðist allur upp, bauð sig mjög skörungslega fram og þegar augljóst var að búið væri að úthluta verkinu... þá bara skráði hann sig samt, mynd, prófæll, laug um þyngd og allt. Svo var hann kominn í ímyndaða keppni við mig. Fór að spurja mig hvað ég væri búin að fá marga pósta, deit etc. Ég er ekki búin að fá eitt! Gæti ekki verið meira sama. Ekkert tapsár, alveg satt. En Tim var komin á ról og höstlaði strax deit...og hann hlýtur að vera mun jákvæðari í tilhugalífinu, því gellan beit á, þau eyddu páskunum saman..og allt!!! Þannig að nú skýt ég mínum sex ára húmor á hann: "How's your girlfriend Tim"... og það er hætt að virka því ég held hann sé in love. Hann er allavegna hrifin að GPS tækinu í litla Mini-num hennar:)

En af öðrum en Tim er það að frétta að London er farin að verða sumarleg og hlý. Og farfuglarnir eru teknir að fljúga hingað yfir í lange baner. Um þar síðustu helgi kom hele familien fyrir utan Þórhall og vorum við fimm hérna í þessari litlu skonsu minni. Tilgangur ferðarinnar var auðvitað að hitta mig og gleðja... en aðallega að fara á Stuðmannatónleika í Royal Albert Hall. Sem var mikið gaman. Mér tókst reyndar að rústa fjöldkyldufriðnum þegar ég leiddi hópinn beinustu leið í Harrods í staðin fyrir Royal Albert Hall... en þótt ég búi í London þá vil ég minna SUMA á það að ég hef sannanir fyrir því að SUMIR voru búnir að grandskoða kortið fyrr um daginn í SAMEININGU og hefðu átt að leiða mig á réttan stað. Ég bara giskaði á húsið með öllum ljósunum;) Sem betur fer var RAH ekki langt undan... en nógu langt fyrir okkur dömurnar sem vorum í miklum spreng, allar í kór. Hinsvegar tókst mér að rétta fjölskyldufriðinn við með því að vippa mér að næsta dyraverði og spurja hvort ekki væri hægt að redda fjölskyldunni plássi saman, víst að húsið væri nú ekki nema næstum 2/3 fullt. Og jújú, það var hægt. Við fengum heila stúku á besta stað útaf fyrir okkur. Máttum bera inn veigar og láta eins og okkur lysti. Þannig að mammalitla stóð mest alla tónleikana fyrir miðja stúku, hristi skrokkinn af innlifum og tók nokkur indíanaöskur. Á slíkum tímum þá sér maður nákvæmlega hvaðan maður hefur þetta:) Svo dóluðum við okkur bara saman, lögðumst í netta dagdrykkju og búðarráp í Covent Garden, og allir fóru sáttir heim.

Um síðustu helgi kom svo kona einsömul í dagsheimsókn. En það var hún Bryndís vinkona sem er búin að missa Sólrúnu sína heim til Íslands. Þannig að til að hugga stúlkuna, eldaði ég ofaní hana timian og hvítlaukskjúlla með öllu tilheyrandi. Gaf henni bjór og rauðvín. Gláptum saman á myndir...sem ég þurfti svooo á að halda eftir að vera búin að vera sjónvarpslaus í 3 mánuði. Steinsofnuðum svo í uppréttri stöðu í sófanum. Vöknuðum og ég matreidda mjöööög svo fituríkar súkkulaðikökur með bráðnuðu súkkulaði inní og vanilluís með. Sáum okkur tilneyddar til að liggja á meltunni uppí rúmi eftir það og lesa Bridget Jones bækur. Og svo fékk ég lit og plokk og fullt af tónlist á iPoddinn minn. Alveg svaka kósí helgi.

Um næstu helgi koma svo fyrrverandi tengdó og mágkona mín yfir í heila 4 daga held ég bara. Tilefnið eru aðrir tónleikar. Emiliana Torrini. Þannig að þá verð ég búin að fara á tvenna íslendingatónleika og enga englendingatónleika í London. Er ég Íslendingur eða er ég Íslendingur?