Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

28.1.11

Dagleg rútína á Entre Ríos


Sit á dansgólfinu inní stofu og multitaska; teygi skankana og skrifa blogg. Úr græjunum berst einstaklega hrjúf karlmannsrödd sem syngur ástarsöngva ... býst ég við. Það sem ég skil er: augu þín, tár, grátur, þegar leiðir skiljast, Buenos Aires, ¿Hver? ...

Úti er sól og hiti, en það er rakinn sem er að drepa okkur hérna á Entre Ríos. Og út af rakanum þá eru skordýrin farin að flýja inn. Svosum ekkert til að tala um ... hef lítið séð og vona að ég sjái sem minnst. Þetta bítur mig nótt sem dag án þess að ég sjái nokkurn skapaðan hlut.

Við höfum verið þrjú í heimili síðastliðinn mánuðinn. Það er Helen - tangókennarinn, Javier - danspartnerinn og stóri bróðir þótt hann nái mér upp að öxlum ... og svo ég. Í gær kom svo sá fjórði heim úr sumarfríi í Brasílíu og ég verð að viðurkenna að ég man ekki hvað hann heitir. En hann er yndislegur,um fimmtugt, alt muglig maður að atvinnu og talar á réttu tempói fyrir mig. Um mánaðarmótin bætist svo í hópin írsk kona sem er í svipuðum pælingum og ég, í smá fríi frá hversdagsrútínunni.

Þetta er yndislegt heimili og nóg að gerast. Hér er skóbúð í anddyrinu, tangókennsla í danssalnum og stanslaus umgangur af tangófólki og vinum Helenar og Javiers. Hér sitja allir mikið í eldhúsinu og kjafta, drekka Mate, horfa á Javier elda kartöflu gnocchi og hlusta á tónlist... svona tilfinningaþrungna eins og ég er að hlusta á núna í bland við Lisu Ekdahl ... því Helen bjó lengi vel í Svíþjóð...

Venjulegur dagur hjá mér er yfirleitt þannig að ég dröslast ótrúlega þvöl og kökudeigsleg eftir raka nótt fram í eldhús um átta og gef mér tíma til að vakna og kjafta ef einhver er kominn á fætur. Það er ekki gefið þar sem porteñoar (BA-búar) eru með allt aðra dagskrá en við yfir daginn, öllu snúið við ... nóg um það síðar. Svo rölti ég niður á Urugay í umferðinni og læri spænsku frá níu til eitt hjá jafnöldru minni sem heitir Fernanda. Hún er mikill feministi og pólitískt þenkjandi, gjörsamlega á móti Frú Kirchner og litlum umbótum í félagsmálum og fær um það miklar munnræpur ef ýtt er á réttan takka.Það er mikið til henni að þakka að skilningur jókst um 50% á einni viku. Eftir skóla rölti ég svo um bæinn og skoða og mingla við heimilisfólkð eða hana Birtu, íslensk stelpa á sama aldri sem flutti hingað út um áramótin og er í sama pakka og ég.

... eða ég geri bara ekki neitt eins og núna. Afrek dagsins eru að ég fékk 98/100 á spænskuprófinu, labbaði niður breiðgötu 9. Júlís peningalaus og vatnslaus og vonaði að ég hefði svitnað nokkrum kílóum af vatni. Vigtaði mig og sá að allt dulce de leche-ið og Havana frappúchinóarnir eru ekki að grenna mig.Svo að ég ákvað að klára alfajor kökurnar með DDL, flatmaga dáldið og leggja drög að því að missa svona eins og 2-3 kíló ... en ákvað að skrifa smáatriða blogg fyrst ...

Hér fyrir neðan er Javier að búa til kartöflugnocchi:

26.1.11

Klístur

Hitinn komst upp í 41 stig í dag.

Ég er sveitt og klístruð og ógeðsleg með flatt hár og ósamræmdar sólarrendur. Ég er með fjólublátt bit á miðfingri og klæjar í það, fjólublátt bit á bakinu, 4+ bit sem eru að gróa og 3 bit á vinstri fæti af spánýrri tegund; stórar vatnsfylltar blöðrur. Ég er með fituna og ljótuna og til að toppa þetta allt saman þá skeit á mig dúfa í dag!

Ég var í sakleysi mínu að labba heim úr skólanum framhjá röð af kaffihúsum þegar það gossaði yfir mig brúnleitt vatn öðru megin og ég horfði bara upp og sagði „¡Qué!“ og sneri mér í hringi rosa ringluð. Hélt að einhver hefði tekið íslendinginn á þetta og ælt út um glugga eða að þetta væri skítugt loftræstingarvatn. Þegar ég var búin að snúa mér í nokkrum sinnum og reyna að finna skýringu miskunuðu einhverjir empanada sölumenn (fylltar bökur) sig yfir mig og buðu mér að nota baðherbergið. Þegar ég kom heim og var búin að skrúbba mig hátt og lágt fattaði ég að einu hreinu fötin sem ég átti voru nike ministuttbuxur, gegnsær toppur og kjóll.

Til að toppa þetta allt gekk loksins myndarlegur, hávaxinn karlmaður hingað inn í eldhús rétt áðan, nemandi tangókennarans. Ég gaf Javier, danspartner tangókennarans og meðleigjandi, habahaba-bendingu og hann hristi hausinn tilbaka. Gay.

Til að lýsa þessu í bakkelsi og eftirréttum. Ef allt væri í lagi liði mér svona:


En mér líður einhvernveginn svona:



21.1.11

Gullhamrar

Eins og allir vita fara suðrænir karlmenn mjög frjálslega með gullhamra og bera lof á allt kvenkyns sem verður á vegi þeirra. Ég viðurkenni að ég fíla þetta í fyrsta skipti á ævinni.

Þegar ég var sautján ára og fór í bekkjarferð til Rómar þá gengu heilu torfurnar af ítölskum strákum á eftir manni öskrandi „bionde,bionde“. Það var sandspólað á ströndinni á litlum vespum, togað í hárið á manni þegar færi gafst og meira að segja klipið í nefið á mér einu sinni á spænsku tröppunum. Ég var ung og vitlaus þá og gerði mér ekki grein fyrir því að þessi athygli myndi ekki endast að eilífu. En aðallega fannst mér þetta dónaleg framkoma þannig að ég var með miðfingurinn á lofti næstum alla ítalíuferðina. Þá fyrst urðu ítalskir karlmenn dónalegir.

Mörgum árum seinna á Íslandi var staðan orðin sú að einu mennirnir sem sögðu að ég væri falleg og fönguleg voru pabbi minn, giftir menn og rónar. Fyrir utan þetta tríó þá man ég eftir einum öðrum. Sorlegt?

Hérna fæ ég gullhamra allan daginn og það er ekki uppáþrengjandi eins og á Ítalíu forðum. Ég er einfaldlega á gangi niðurgötuna. Karlmaður stendur og er að selja blöð. Ég labba framhjá, hann lítur upp og segir „qué linda“ og heldur svo áfram við iðju sína. Bíður ekki eftir viðbrögðum . Ég stend og bíð eftir ljósunum og leigubílstjóri kallar út um gluggann „hermosa“ þegar hann keyrir framhjá og einbeitir sér svo aftur að götunni eins og hann hafi aldrei séð mig. Áfram labba ég einhver muldrar „divina“ og strunsar framhjá.

Og bensínmælirinn sem var farinn að blikka gulu ljósi tikkar upp á við með hverjum deginum sem líður.

19.1.11

Dulce de leche dagur

Ég labbaði í skólan í dag í helli-helli-dembu með regnhlíf og fannst það ótrúlega rómantískt og heimsborgaralegt á sama tíma. Svo gerði meiri dembu og ennþá meiri dembu og smá vind, þannig að það eina sem blotnaði ekki var hárið á mér, sem var þegar blautt eftir sturtuna. Svo komu þrumur og eldingar og það fossaði meðfram öllum gangstéttum og allir stóðu undir búðarskyggnum nema við regnhlífarfólkið. Opnu skórnir mínir breyttust í sundlaugar og ég skautaði fram og tilbaka. Ég hafði engar áhyggur af því að detta, meiri áhyggjur af því að ég myndi stíga ofan í eina af þessum holum sem eru út um allt í gangstéttunum og að þar væri hundaskítur í bland við rigningarvatnið. Hér er mikið af hundaskít á gangstéttunum, meira í sumum hverfum en öðrum. Það gerðist ekki í þetta sinn sem betur fer ...

Við erum níu saman í morguntímum í skóla niðrá Urugay götu, í cirka korters fjarlægð frá mér. Þetta er allt fólk á mínum aldri ótrúlegt nokk og allir mjög fínir. Hér koma svo nokkrar skemmtilegar staðreyndir:

  • 7 af 9 sögðu upp vinnunni á síðasta ári!
  • 5 af 9 ætla sér að taka rúmt ársleyfi og ferðast annaðhvort um Suður Ameríku eða heiminn bara.
  • 2 af 9 ætla sér að síðan að skipta algjörlega um atvinnugrein.
  • 5 af 9 eru grænmetisætur ... sem er bilun í Buenos Aires ...

Við erum sem sagt öll um þrítugt í einhverskonar existensíalískum pælingum ...

Boris er 33 ára tölvunarfræðingur frá Króatíu sem hefur unnið í mörg ár í sölu- og markaðsráðgjöf í Vín fyrir Nokia. Hann ætlar að ferðast um Suður Ameríku. Hann elskar heiminn. Aðalsetningin hans er „Hjúróp, hjits só bóríng“.

Clair er þrítugur breskur læknir . Hún er búin að fá nóg af því að vera læknir og ætlar að svissa yfir í viðskiptagreinar. Afhverju? Henni finnst sjúklingar væla of mikið! Og nei, hún er ekki kaldrifjuð tík. Hún sagði mér að það hefði komið sér á óvart allt fólkið sem lifir fyrir það að fara til læknis og reyna að finna eitthvað að sér til að kvarta yfir. Og henni fannst allt of mikill tími lækna fara í það og það gerði hana þunglynda. Hún ætlar að ferðast um Argentínu og fara svo til Asíu. Því miður því miður því miður þá get ég ekki sleppt að segja frá því að hún er með skegg! Ofvöxt í andlitshárum, já. (Afhverju þurfa breskar konur alltaf að falla inní þessa stereótýpuímynd. Afhverju? )

Derrick frá Kanada hætti í vinnunni og ætlar að ferðast um og sjá svo til.

Edna hætti í vinnunni sinni og fylgdi kærastanum sínum hingað (Joel). Þau ætla að vera hér um óákveðin tíma og hann mun mála listaverk á veggi utandyra. Hingað til hefur hann ekki málað neitt því það byrjar alltaf að rigna þegar hann kemur á staðinn.

Það voru svo allir hundblautir í skólanum og útaf rakanum þornaði ekki þráður á þessum fjóru tímum. Eftir tíma rölti ég um í rigningunni sem var orðin rólegri og stoppaði við í bakaríi. Tók mér skál,labbaði um og tíndi ofan í hana. Þvílíkt bakkelsisfrelsi! Ég keypti mér tvær smjördeigssúkkulaðibollur með dulce de leche, stolti S-Ameríkubúa. Þetta er eins og karamella, en bara miklu miklu mýkri og rjómaðri.Þetta er svolítið eins og borða himnaríkiJ

18.1.11

Kjöt og Sykur


Ég vissi áður en ég fór að Argentína væri mikil kjötþjóð. Ég hef búið með kjötþjóðum áður (Austurríki og Þýskalandi) og bjóst við að þetta yrði eitthvað svipað.

Sjálf er ég ekkert brjáluð kjötmanneskja, þ.e.a.s. sem aðalmáltíð á diskinn minn. Ég er reyndar með skinku- og pylsublæti en það er aðeins öðruvísi og ég hef þurft að draga úr því síðustu árin. En þegar ég kem til nýs lands þá legg ég mig fram við að kynnast þeirri menningu sem ríkir í unnum kjötvörum. Þannig finnst mér ég sjá pínu lítið inn í hjarta þjóðarinnar. Í Þýskalandi borðaði ég mína Frakfurtera og Bratwursta og í Bretlandi tókst mér að fá æði fyrir pork pies úr Sainsbury‘s. Ég meikaði reyndar ekki beef jerky í Bandaríkjunnum og finnst það bara rugl. Austurríki stendur ennþá uppúr fyrir það eitt að búa til sérskinku úr skinku OG osti!

Argentína er hinsvegar ekkert venjuleg kjötþjóð. Ég er búin að fara allavegana þrisvar í súpermarkaðinn að kaupa inn nauðsynjr. Í hvert einasta skipti lendi ég í því að þegar ég er búin að raða mjög pent mínu brauði og ávöxtum og grænmeti á færibandið, þá er alltaf einhver lítil amma á eftir mér sem byrjar að stafla troðfullum frauðplastsdúnkunum af kjötvörum á bandið. Og það stoppar venjulega ekki fyrr en það er kominn einhver meter af hakki og lærum og lundum og steikum og frampörtum og innyflum á bandið og augun í mér eru orðin eins og undirskálar og ég er farin að hálf skammast mín fyrir þessa einu skitnu skinku sem ég fann í unnu kjötvörunum.

Þessi eina skitna skinka var reyndar frekar góð og ég hef aldrei fengið svoleiðis áður. Einskonar skinkukryddrúlla með harðsoðnu eggi í miðjunni.

Ekki nóg með það að þá borða þeir innyflin. Ég sá heila í kjötborðinu á einum stórmarkaðnum! Fór út að borða í gær með íslendingum í borginni og á matseðlinum var rétturinn „Kjöt og innyfli“. Ég spurði ekki nánar út í þetta.

En þeir eru ekki bara kjötþjóð, þeir eru mjög mikil sykurþjóð líka. Ég þurfti til dæmis að gera dauðaleit að instantkaffi án sykurs. Fékk uppáhellingu í skólanum í dag og frussaði næstum yfir samnemanda þegar ég fann sirka fimm sykurmola sem ég setti ekki í bollann.

En á móti kemur að þeir eru með ótrúlega gott bakkelsi og glæsilegt! Hættulegt. Ég stend mínútunum saman fyrir framan kruðerírekkann og reyni að velja það fallegasta...

En, það var íslendingahittingur í gær hjá óformlega íslendingafélaginu í Buenos Aires.Það samanstendur af cirka fimm manns með fasta búsetu og svo 3-4 tímabundnum. Þar er ég talin með. Það var verið að kveðja einn og því var farið á nautakjötsstað í Palermo. Þar fékk ég mér hálfa bife de lomo og rauðvínsglas með og get því strikað það út af todo listanum. Þessi mynd var tekin af því tilefni:

16.1.11

Ef ég ætti að lýsa þessari borg ...

... þá myndi ég segja New York. New York fleytifull af ítölum. Það er líka nokkuð um evrópskt litarraft í bland þannig að ég er engan vegin hvítust. Takið mig alvarlega! Búin að ganga fram á svo kríthvítar hræður hérna að maður mætti halda að sumum væru engar litafrumur gefnar. Ég fékk þó mínar fjórar. Og svo hef ég bara ekki séð einn svartan mann! Verð að minnast á það því að það er (A) frekar óvenjulegt miðað við svona stóra borg en aðallega (B) vegna þess að ég veit að það mun gleðja nokkra ónefnda ættingja ...þeir taka það til sín sem það eiga...

Borgin er skipulögð svipað og NY, eins og rúðustrikað blað. Byggingarnar eru háar, það er mikil umferð, allt troðfullt af leigubílum og ef maður labbar alla leiðina niðureftir þá endar maður við sjóinn. Og svo er það þessi vindur eins og í NY, hann er hér en miklu hlýrri.

Það sem er öðruvísi við borgina er að hún er stútfull af svölum. Það er ekkert verið að spara þær fyrir suðurhliðina neitt. Og útaf hitanum að þá er allt pakkfullt af loftræstingum sem þurfa að vera í gangi allan daginn. Fyrst skildi ég ekkert hvernig það gat rignt á mig úr heiðskýrum himni, en þá var það bara affallsvatn úr loftræstingunum. Fékk alveg þrjár gusur beint í augað bara í gær.

Annars er ég búin að ganga sleitulaust alla daga síðan ég kom. Það er svo mikið að sjá! Eftir fyrsta daginn var ég komin með risa blöðru undir vinstri fæti, svo ég sprengdi hana og gekk bara á gati. Sem var allt í lagi nema þegar ég stoppaði, þá fann ég sársaukann og átti erfitt að komast í gang aftur.Þannig að ég stoppaði bara sem minnst og hvíldi fótinn á kvöldin. Svo reif ég sama fót á grein svo fossblæddi og bætti svo við nokkrum táblöðrum. En nú er ég komin með blöðru undir blöðru og opið sár, þannig að ég þýt ekkert um stræti Buenos Aires í dag. Það er líka 30 stiga hiti og ég ætla að hætta mér upp á þak og reyna að þjálfa þessar fjórar íslensku litafrumur sem mér voru þó gefnar.

14.1.11

Roberto ...

Roberto tók á móti mér á flugvellinum. Hann var alveg eins og ég bjóst við. Mínus yfirvaraskeggið. Dökkhærður, rostungslegur, með grátt í vöngum og klæddur í svarta skyrtu, svartar buxur og svarhvítköflótta tangóskó. Við féllumst í faðma og kysstumst eins og örlögin hefðu leitt okkur saman á ný eftir áratuga aðskilnað og löbbuðum svo út í hitann. Hann viðurkenndi að hann væri ekki skynsamlega klæddur miðaða við veður en ég benti honum á rússkinskuldaskóna sem báru mig í gegnum snjó og slabb í Köben ... og hann hló. Ég afklæddi mig svo á bílastæðinu því annars hefði ég ofhitnað og dáið med det samme.

Leigubíllinn var fyrsta ævintýrið. Þetta var lítill rauður fólksbíll frá cirka 1980. Svo lítill að taskan mín komst ekki fyrir í skottinu, en ég kveikti ekki á perunni. Roberto spurði herramannslega hvort mætti bjóða mér að sitja fram í eða aftur í og ég svaraði að vegna örlítillar autobahnhræðlsu væri ég best geymd í aftursætinu. Þannig kom það til að ég sat á fimm akreina hraðbraut, aftur í, án öryggisbeltis, taldi sígrettuskransför í loftklæðningunni og allar gúmmíræmurnar sem höfðu flagnað frá gluggunum í áranna rás og löfðu nú niður hurðarnar. Á meðan sat taskan mín í góðu yfirlæti í framsætinu,ekki í öryggisbelti, með rúðuna skrúfaða niður, ferska goluna framan í sig og hægri olnbogann á Roberto á öxlinni.

Við töluðum saman á bjagaðir ensku og plástraðri spænsku um sundlaugar og Maradona. „He‘s a good footballplayer ... but as un hombre, he‘s crazy in the head!!!“. Himininn var heiður, glampandi sólskin, öll þessi tré sem ég þekki ekki græn græn græn og allar sundlaugar meðfram hraðbrautinni pakkaðar af börnum. Á akreinunum við hliðina voru allar kynslóðir af bílum, allt frá splunkunýjum niður í minn aldur, og alls konar samsettir flutningabílar. Róberto tók svo af mér loforð um að læra tangó meðan ég væri í Buenos Aires. Við féllumst aftur í faðmlög og kossa við húsdyrnar hjá Tangókennaranum og ég sór ég myndi hringja í hann ef ég einhverntíman þyrfti far.