Fritz und die Fledermäuse

...blogged wie der Wind...

28.2.06

-13

Það er mínus 13 stiga gaddur úti og vindur. Búið að vera svona alla helgina. Ég er búin að vera veik síðan um helgina, svaf 16 klukkutíma frá Sunnudegi til Mánudags. Mætti samt í vinnuna í dag. Þvílíkur eldmóður! Endaði á því að snappa á alla sem komu nálægt mér af einskærum pirringi yfir því að geta ekki svarað neinum spurningum því heilinn var jafn horstíflaður og nefið á mér.

Á morgun er nýr dagur... en alveg örugglega sami Síberíugaddurinn og í dag.

21.2.06

Presidents Day

Í dag er einn af fáum frídögum í Bandaríkjunum. Presidents day. Ég veit ekki nákvæmlega söguna á bakvið hann eða hvað hann gerir, en ætla að spurja á morgun. Ég varð allavega ekki vör við nein hátíðahöld, skrúðgöngur eða breytta sjónvarpsdagskrá. Það eina sem gerðist var að útsölurnar byrjuðu aftur, en það gera þær alltaf á hátíðisdögum. Þannig að ég naut þess að eiga einn extra frídag og fór að versla og í ræktina.

Ég er búin að eignast nýja vinkonu í húsinu. Amber í íbúð 430. Fór með henni til Alyssu í 408 á föstudaginn þar sem við gerðum það sem allar stelpur gera þegar þær eru að drekka hvítvín saman. Dissuðum stráka. Amber hafði sagt upp kærastanum á þriðjudeginum, Valentínusardeginum, sökum minnkandi áhuga og natni hans sem kom að hennar sögn best fram í Valentínusargjöfinni frá honum. Hún fékk bara rós, reykelsi og geisladisk og búmm sambandið sprakk. Eftir að hafa huggað hana hélt ég litla ræðu um þýðingu sambanda í nútímasamfélagi óháð efnishyggju sem hafði þau áhrif að Amber þaut beinustu leið í símann við Ryan og eftir 45 mínútna spjall ákváðu þau að láta á það reyna á ný. Er soddan snillingur þegar ég kemst á skrið:)

Á meðan Amber var í símanum kynntist ég Alyssu aðeins betur. Alyssa er 24 ára rosalega sæt bítnik stelpa sem dreymir um að verða fatahönnuður, kvartar yfir mögrum lífeyri frá foreldrum sínum (svona 100 þús á mánuði !) og reykir soldið mikið hass, sem hún af einhverjum ástæðum fær gefins! Það ætti að skína í gegn að mér þykir hún soldið spillt barn. Nema hvað, fer stelpan að tala... Í fyrsta lagi er hún með heilaæxli sem hún vill ekki láta fjarlægja því það hefur ekki stækkað í eitt ár og ef það verður fjarlægt er mikil hætta á málörðugleikum hjá henni. Í öðru lagi hefur mamma hennar verið geðveik síðan hún var krakki. Englaralheimsins style. Hún er með IBS. Systir hennar fékk Lime-desease. Einhver í náinni fjölskyldu lenti í mögnuðu bílslysi á síðasta ári.... og listinn hélt áfram og áfram og áfram. Ég bað til guðs að Amber færi að koma úr símanum því ég var ekki með það á hreinu hvort ég hefði lent í krónískum lygara og athyglisfíkli eða ekki. Hún er víst athyglisfíkill en allt sem hún sagði var satt.

Annars er lítið að frétta. Hef bara verið dugleg í ræktinni og farið mikið út að borða með vinum og kunningjum.

15.2.06

Valentínusardagur

Í dag er Valentínusardagur og hillurnar í súpermörkuðunum eru fullar af hjartalaga súkkulaði. Jón Árni splæsti í gular rósir á allar stúlkurnar í vinnunni, sem gerði okkur mjög glaðar. Allar einhleypu stelpurnar voru með plön eins og að þrífa íbúðina eða glápa á imbann um kvöldið. Ég eyddi Valentínusarkvöldinu í ræktinni. Ræktin var ekki jafn bissí og venjulega og við störðum hvor á aðrar veltandi fyrir okkur afhverju hin væri ekki á deiti. Nema ég, því ég kem frá menningu sem hefur ennþá ekki gert þennan dag að sínum, þó einhverjar Létt 96.7 útvarpskonur séu að reyna að þröngva hefðinni uppá landann.

6.2.06

Schon wieder in Boston

Þá er ég orðin Certified Microstrategy Project Designer.... úrah! Nei þetta er ekkert sérstaklega fansý, þýðir bara að ég fór í gegnum viku af Microstrategy þjálfun og náði prófinu úr 600 blaðsíðum. Fer á CV-ið.

Ég lagði af stað til Chicago sunnudaginn síðasta. Sat við hliðina á svörtum homma sem var svo feitur að hann þurfti að taka upp sætisarminn og troða hálfri rasskinn yfir á mitt svæði. Hann var ágætur og við hneyksluðumst saman yfir flugfreyjunum. Ein þeirra húðskammaði farþega fyrir ekki neitt og ég hef aldrei á ævinni séð jafn slæmt performance í öryggisreglunum. Það var sorglegt að horfa á lífsþreytta fertuga fyrrverandi klappstýru dæsa og tyggja tyggjó á milljón á meðan hún þóttist setja öndunargrímu yfir barn... á meðan hin flugfreyjan virtist ekki kunna helminginn af sjóinu, hætti bara og fór!

Hótelið var í Rosemont, úthverfi Chicago. Það var ekkert þarna nema hótel og skrifstofubyggingar, ekki kjörbúð í 4 kílómetra radíus. Ég var á 10 hæð í hótelíbúð sem var stærri en stúdíóíbúðin mín og útsýnið var O'Hare flugvöllur þannig að ég fylgdist með stórum og litlum flugvélum lenda með þriggja mínútna millibili þegar ég var ekki að læra. Þetta var mjög þögul vika. Ég fór á námskeiðið, uppá hótel, borðaði og lærði og talaði ekki í 15 klukkutíma á sólarhring.

Ég fór tvisvar niðrí miðbæ Chicago í göngutúra. Komst að því að Boston er pínu pínu lítil. Seinna skiptið sem ég fór var á föstudeginum, áður en ég fór í flugið. Ég lenti á útsölu og missti næstum því af vélinni:) Reddaði mér leigubílstjóra sem sveifst engis til að koma mér á völlinn... keyrði þvert yfir 3 akreinar og tók ólöglega handbremsubeygju í áttina að O'Hare. Ég var komin niðrá flugvöll hálftíma áður en vélin átti að fara í loftið, með hjartað í buxunum og var uppá náð og miskun check-in konunnar sem sagði mér að ég væri of sein til að tékka inn farangurinn minn.... en örvænting mín hefur brætt hana því hún reddaði því á endanum. Ég hljóp móð og másandi inní vélina og svitinn bogaði af mér. þetta hefði verið sætur sigur ef við hefðum ekki lent í töf og þurft að bíða á flugbrautinni í 1 og hálfan tíma:)